Fótbolti

Åge Hareide glímir við sjúk­dóm

Árni Jóhannsson skrifar
Åge Hareide, glímir við veikindi og er honum óskað velgengni í þessum bardaga.
Åge Hareide, glímir við veikindi og er honum óskað velgengni í þessum bardaga. Vísir /Getty

Fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, Åge Hareide, glímir við sjúkdóm en það kom fram á blaðamannafundi Ståle Solbakken fyrir leik Norðmanna og Ítalíu á morgun. Ekki hefur komið fram hverskonar sjúkdóm Åge glímir við.

Solbakken byrjaði blaðamannafundinn á að segjast vilja senda kveðju til Hareide sem þjálfaði Ísland á árunum 2023 til 2024. Norski landsliðsþjálfarinn talaði um að á meðan Noregur væri á leiðinni í örlagaríkan bardaga þá væri Hareide einnig í miklum bardaga. 

Norski miðillinn VG talaði um í frétt sinni af blaðamannafundinum að þeir hefðu vitneskju um að Hareide væri veikur. Hann þurfti að gangast undir hnéaðgerð þegar hann hætti með íslenska landsliðið en bæði hnéin hans hafa þurft á lagfæringu að halda.

Solbakken staðfesti það þá við VG að Hareide hafði vitað af því að hann ætlaði að senda kveðjuna án þess þó að vilja fara út í um hvernig veikindi væri að ræða. Fjölskylda Hareide og hann sjálfur þyrftu að greina sjálf frá því. VG náði ekki í fjölskyldu Hareide né hann sjálfan til að fá fréttir af veikindum hans.

Hareide er víst lentur í Milan og mun fylgjast með leik Noregs og Ítalíu. Solbakken vildi meina að þessar fréttir af Hareide gætu gefið norsku leikmönnunum ástæðu til að standa sig vel.

Leikur Ítalíu og Noregs verður sýndur beint á Sýn Sport Viaplay á morgun, 16. nóvember, kl. 19:35.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×