Fótbolti

Sendi Bellingham tóninn: Verður að sætta sig við og virða á­kvarðanir mínar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Tuchel á í smá vandræðum með Jude Bellingham sem fékk loksins á byrja landsleik í gær.
Thomas Tuchel á í smá vandræðum með Jude Bellingham sem fékk loksins á byrja landsleik í gær. Getty/Eddie Keogh

Thomas Tuchel, þjálfari enska landsliðsins, sagði eftir leikinn að Jude Bellingham verði að sætta sig við ákvarðanir hans eftir að miðjumaðurinn lýsti yfir gremju sinni yfir því að vera tekinn af velli undir lok sigurleiks Englands í undankeppni HM í Albaníu.

Tvö mörk frá Harry Kane undir lokin tryggðu 2-0 sigur í Tirana sem þýddi að liðið sem lenti í öðru sæti á EM 2024 lauk riðlakeppninni í K-riðli með áttunda sigrinum og áttunda leiknum án þess að fá á sig mark.

Bellingham var einn af sjö leikmönnum sem komu inn í liðið frá sigurleiknum á Serbíu á fimmtudag en Real Madrid-maðurinn var tekinn af velli sex mínútum fyrir leikslok í fyrsta byrjunarliðsleik sínum með Englandi síðan í júní.

Hinn 22 ára gamli leikmaður setti hendurnar upp í loft af gremju rétt eftir annað markið þegar hann sá Morgan Rogers bíða eftir að koma inn á fyrir hann á hliðarlínunni. Þetta voru viðbrögð sem Tuchel líkaði ekki sérstaklega vel við.

„Þetta er ákvörðunin mín og hann verður að sætta sig við hana,“ sagði landsliðsþjálfari Englands. „Vinur hans bíður á hliðarlínunni, svo þú verður að sætta þig við það, virða það og halda áfram,“ sagði Tuchel.

Aðspurður hvort viðbrögð Bellinghams stangist á við það sem hann hefur talað um varðandi hegðun sagði Tuchel: „Ég sá það ekki þannig, ég þarf að skoða þetta aftur“ sagði Tuchel.

„Ég sá að hann var ekki ánægður. Ég vil ekki gera meira úr þessu í augnablikinu en það er. Ég held að að vissu leyti, ef þú ert með leikmenn eins og Jude, sem eru svo miklir keppnismenn, þá muni þeim aldrei líka það, en eins og þú sagðir, þá stendur orð mitt,“ sagði Tuchel.

„Þetta snýst um kröfur og stig, og þetta er skuldbinding og virðing hver við annan, svo einhver bíður fyrir utan og við munum ekki breyta ákvörðun okkar bara af því að einhver veifar höndunum,“ sagði Tuchel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×