Fótbolti

Kane náði Pele og var líka yfir­lýsingaglaður eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane fagnar marki fyrir enska landsliðið og því að komast upp fyrir Pele á markalista landsliðsmanna.
Harry Kane fagnar marki fyrir enska landsliðið og því að komast upp fyrir Pele á markalista landsliðsmanna. Getty/Michael Regan

Harry Kane skoraði bæði mörk enska landsliðsins í gær sem varð aðeins annað evrópska liðið til að vinna alla leiki sína í undankeppni HM án þess að fá á sig mark.

Englendingar unnu 2-0 sigur á Albaníu í lokaleiknum sem þýðir að liðið endaði með fullt hús og markatöluna 22-0.

Þetta voru mörk númer 77 og 78 hjá Kane fyrir enska landsliðið og hann stökk því yfir Pele á listanum yfir flest mörk fyrir landslið. Pele skoraði 77 mörk í 92 leikjum fyrir Brasilíumenn.

Kane var yfirlýsingaglaður eftir leik og talaði um að England væri með eitt besta landslið sem það hefur nokkurn tímann átt.

„Ég held að þetta sé jafn gott og við höfum nokkurn tímann átt,“ sagði Harry Kane við ITV eftir leikinn. 

„Ég held að þegar maður horfir á byrjunarliðið, horfir á leikmennina sem koma af bekknum, þá förum við inn í mótið sem eitt af sigurstranglegustu liðunum. Við verðum að sætta okkur við það. Við höfum verið í þeirri stöðu á síðustu mótum og það er hluti af þessu,“ sagði Kane.

„Þannig að við höfum verið að byggja okkur upp, við höfum átt frábært ár saman með nýja þjálfaranum og nú hlökkum við augljóslega til stóra ársins 2026. Ég held að við höfum sett standardinn núna, sérstaklega í síðustu landsliðsverkefnum, og við héldum því áfram í þessu verkefni,“ sagði Kane.

„Þetta var mikilvægur sigur. Maður vill ekki enda árið á tapi og þurfa svo að bíða fram í mars til að spila aftur. Við getum farið og notið þessa núna,“ sagði Kane.

Þeir eru aðeins annað evrópska liðið til að vinna alla leiki sína í undankeppni HM án þess að fá á sig mark, á eftir Júgóslavíu í undankeppninni fyrir HM 1954. Júgóslavanir spiluðu þá aðeins fjóra leiki.

Kane endar árið með 9 mörk í 9 landsleikjum. Frá og með árinu 2021 hefur hann skorað 46 mörk í aðeins 61 landsleik, þar af 25 mörk í 32 landsleikjum síðustu þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×