Handbolti

Stórleikur Óðins dugði ekki til en Melsungen í góðum málum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson raðaði inn mörkum gegn Nexe í kvöld.
Óðinn Þór Ríkharðsson raðaði inn mörkum gegn Nexe í kvöld. vísir/hulda margrét

Óðinn Þór Ríkharðsson var einu sinni sem oftar markahæstur hjá Kadetten Schaffhausen sem tapaði fyrir Nexe á heimavelli, 31-32, í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld.

Óðinn skoraði átta mörk úr jafn mörgum skotum fyrir Kadetten Schaffhausen sem er í 2. sæti H-riðils með fjögur stig, einu stigi á eftir Nexe.

Eftir jafnræði lengst af tóku Slóvenarnir völdin undir lok leiks og sigurinn var öruggari en lokatölurnar gefa til kynna. Svissnesku meistararnir skoruðu síðustu þrjú mörk leiksins.

Arnar Freyr Arnarsson var ekki á meðal markaskorara hjá Melsungen sem sigraði Ferencvaros í Ungverjalandi, 25-28. Þýska liðið er með átta stig á toppi E-riðils.

Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði fjögur mörk fyrir Kristianstad sem laut í gras fyrir Vardar, 35-30. Þetta var fyrsta tap sænska liðsins í F-riðli en það er í 2. sæti hans með fimm stig.

Birgir Steinn Jónsson komst ekki á blað þegar Sävehof tapaði fyrir Hannover-Burgdorf á heimavelli, 28-30. Sävehof bíður enn eftir sínum fyrsta sigri í G-riðli.

Þá lék Kristján Örn Kristjánsson ekki með Skanderborg sem rúllaði yfir Minaur Baia Mare frá Rúmeníu, 39-26. Skanderborg er með fullt hús stiga á toppi C-riðils en danska liðið hefur unnið alla fjóra leiki sína með samtals fjörutíu mörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×