Fótbolti

FIFA setur nettröllin á svartan lista

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino, forseti FIFA, (t.h.) með heimsmeistarabikarinn í hönd við hlið Donalds Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu. 
Gianni Infantino, forseti FIFA, (t.h.) með heimsmeistarabikarinn í hönd við hlið Donalds Trump Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu.  EPA/ANNABELLE GORDON

Alþjóðaknattspyrnusambandið grípur til harðra aðgerða gegn einstaklingum sem hafa sent frá sér hatursfull ummæli og hótanir á alheimsnetinu. Áætlunin er að koma í veg fyrir að þeir mæti á heimsmeistaramótið næsta sumar.

Aðgerðirnar koma fram í nýrri skýrslu sem kynnt var hjá FIFA um helgina.

Fifa hefur með þessu hert baráttuna gegn hatri og hótunum á samfélagsmiðlum eftir að hafa áður fengið gagnrýni fyrir að vernda ekki leikmenn í heimsfótboltanum nægilega vel.

Skýrsla frá leikmannasamtökunum Fifpro hefur meðal annars bent á að einn af hverjum fimm leikmönnum hafi orðið fyrir munnlegu ofbeldi á HM kvenna árið 2023.

Fifa hefur brugðist við gagnrýninni með því að innleiða tólið „Social Media Protection Service“, sem er sambland af tæknilegum hjálpartækjum og sveigjanlegri viðvörunaraðgerðum til að vernda leikmenn.

„Ég vil taka það skýrt fram að fótbolti verður að vera öruggt og inngildandi umhverfi, bæði á vellinum, í stúkunni og á netinu,“ segir Gianni Infantino, forseti FIFA.

Alþjóðaknattspyrnusambandið greinir frá því að sambandið hafi tilkynnt yfir þrjátíu þúsund hótandi færslur í tengslum við mót sín á þessu ári til samfélagsmiðlafyrirtækja. Ellefu einstaklingar hafa verið kærðir til lögreglu í löndum eins og Argentínu, Brasilíu, Frakklandi, Bretlandi og Bandaríkjunum.

Eitt mál hefur verið afhent Interpol, Alþjóðalögreglunni.

Auk lögreglumálanna grípur FIFA einnig til eigin aðgerða til að refsa nettröllunum. Meðal annars er einstaklingum sem sambandið hefur auðkennt sem ógnandi nú meinað að kaupa miða á komandi viðburði eins og HM karla í Norður-Ameríku á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×