Skoðun

Kerfis­bundin villa – Af hverju þurfa börn inn­flytj­enda að læra ís­lensku sem annað mál?

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson skrifar

Hvernig má það vera að börn sem hér eru fædd, börn á grunnskólaaldri sem hér hafa búið lengur en eitt ár kunna oft vart nógu góða íslensku til að fylgja fyrirmælum í skólum landsins. Allajafna ætti það að taka grunnskólabörn eitt ár að vera talandi á íslensku og hafa nægilega góðan skilning á málinu til að sinna námi sem skyldi. Og af hverju enda sum börn innflytjenda í námi í íslensku sem öðru máli þegar komið er upp í framhaldsskóla? Sum þessara barna eru fædd hér á landi og hafa alist hér upp. Af hverju hellast börn innflytjenda oftar úr námi að grunnskóla loknum? Við vitum vel svarið við síðustu spurningunni: Ástæðan er að stórum hluta íslenska, eða skortur þar á.

Það eru engin ný sannindi að börn innflytjenda, útlensk börn, eigi minni séns í íslensku skólakerfi. Í Grunnskólanum á Ísafirði, skóla barna minna, eru t.d. börn sem skilja illa íslensku og hafa því verri forsendur til að inna verkefni og próf af hendi sakir skorts á íslenskukunnáttu. Sum börnin þar kjósa almennt séð fremur að tjá sig á ensku þrátt fyrir að búa ekkert endilega yfir góðri enskukunnáttu. Börn þessi ættu, vel að merkja, að hafa búið hér nógu lengi til að vera á svipuðum stað og börn innfæddra og ættu þar af leiðandi að geta setið, nokkurn veginn, við sama borð.

Því miður er málum svo háttað að Ísland er á vondum stað hvað máláreiti og málörvun innflytjenda varðar. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Fjármagn og framboð eru auðvitað vegamiklar ástæður en í grunninn er þó orsökin fyrst og síðast almennt samfélagslegt andvaraleysi. Andvaraleysi sem hefir leitt íslenskt samfélag á þann stað að einungis 18% innflytjenda telja sig hafa tök á málinu. Litast sú tala af því að við sem samfélag gerum oftlega engar eða litlar kröfur um almenna íslenskukunnáttu innflytjenda.

Og sé ekki gerð sanngjörn krafa um íslenskukunnáttu, sé viðhorfið að íslenska skipti ekki máli smitast það viðhorf næsta víst á börnin sem búa nú þegar í íslenskufjandsamlegu umhverfi. Það má og ljóst þykja að kunni foreldrar ekki íslensku og sjá ekki ástæðu til að læra hana hlýtur það að hafa áhrif á börnin. Einnig má ljóst þykja að þegar sumt starfsfólk skólanna hér á Ísafirði og reyndar einnig Sundhallarinnar, Skíðasvæðanna, veitingahúsanna, hótelanna og þar fram eftir götunum kann ekki málið hefir það einnig áhrif. Þetta eru þættir sem grafa undan íslenskunni og þá ekki síst hvatanum. Þetta vinnur gegn málörvun og eðlilegu máláreiti í samfélaginu. Að maður tali nú ekki um þá stöðu sem komin er upp á Tanga þar sem meirihluti starfsfólksins kann ekki íslensku. Ekki getur mikið farið fyrir málörvun á þeim bænum sem bitnar, eins og flest allt í þessum efnum, verst á börnum innflytjenda. Íslensku börnin fá sína íslensku, eða ættu að geta fengið hana, heima við, hjá afa og ömmu, hjá venslafólki eða hjá vinum sem foreldrar hafa þekkt síðan í leikskóla.

Samfélaginu virðist því miður bara vera nokk sama um málið þrátt fyrir allan (innantóman?) fagurgalan um dásemd fjölmenningar og jafnréttis. Jafnréttið felst nefnilega ekki síst í því að geta setið við sama borð þegar kemur að tungumálinu og námi sem fer auðvitað fram á íslensku.

Í hnotskurn snýst þetta ósköp einfaldlega um þá staðreynd að börn innflytjenda, börn sem við viljum að verði tvítyngd, sitja ekki við sama borð og innfædd, þau hafa ekki sömu möguleika til að ná árangri og þá burtséð frá samfélagslegri stöðu. Undir viðlíka kringumstæðum er enskan líklega eina fagið þar sem innfæddir og innflytjendur ættu að geta nokkurn veginn setið við sama borð, þar sem kunnátta í íslensku ætti ekki að skipta máli. En sú er ekki einu sinni raunin þar sem kennsla í ensku fer að stærstum hluta til fram á íslensku (allavega í 10. bekk GÍ). Það hlýtur að teljast römm tímaskekkja árið 2025 þegar flest öll börn hérlendis lifa og hrærast í menningarheimi enskunnar og við því í dauðafæri til að kenna ensku á markmálinu svo grunnskólabörn læri hana vel. En gott og vel þurfi að kenna ensku í gegnum millimál ættum við þá að sjá til þess að allir kunni íslensku nægilega vel til að geta fylgt flestöllu eftir í kennslustund.

Við búum við kerfislæga mismunun (öll skólastig) sem felst í því að börn innflytjenda eiga stöðugt minni og minni möguleika á að ná árangri sakir verri íslensku og það tilstand er samfélagslegt vegna þess að móðurmálshafar virða málið mikið til að vettugi, hugsa sem svo að smá enska skaði vart, það skaði mig nú ekki þótt einhver útlendingur tali ekki íslensku, læri ekki málið. Ég kann nú alveg ensku. Öll þessi litlu atriði grafa undan málinu, öll þessi atriði, líka skilti og matseðlar á ensku, grafa undan íslensku og því að hún á auðvitað að vera sjálfsagða málið. Sé hún ekki sjálfsagða málið í samskiptum við innflytjendur, sé ekki gerð krafa um málið samhliða tækifærum til að læra það bitnar það næsta víst mest á börnunum.

Eftirfarandi línur eru teknar úr grein frá 2018, skrifaðar af innflytjenda:

„Ég vinn sem grunnskólakennari í Háaleitisskóla uppi á Ásbrú og vann svo í 9 ár í leikskólanum Hjallatúni og sú þróun sem ég sé á hverjum einasta degi veldur mér áhyggjum hvað verður um íslenskt tungumál í náinni framtíð. Það sem er að gerast nú þegar er að börnin sem fæðast hér á Íslandi standa oft á tíðum frekar illa í íslensku. Það eru eflaust margar ástæður fyrir því en ein af þeim er að Íslendingar gera ekki nógu miklar kröfur til þess að foreldrar þeirra læri íslensku og beri virðingu fyrir samfélaginu sem þeir búa í.“

Við ætlum varla að bíða eftir því að börn Íslendinga sem rakið geta ættir sínar til landnáms þurfi að skrá sig í íslensku sem annað mál áður en við byrjum að aðhafast nokkuð. Og haldi fólk að þetta skipti ekki máli, enska sé hvort eð er að taka við getur fólk verið alveg visst um að engar forsendur eru fyrir því að börn verði jafnvíg í ensku og börn þau sem hafa hana að móðurmál. Þar spillir íslenskan svo að segja fyrir enda eru íslenskir skólar á Íslandi og enn töluð þar íslenska. Niðurstaðan yrði því líklega sú, og er nú þegar kominn vísir að því, að viðkomandi myndi kunna málin jafn illa.

En hvað er til ráða? Ja, eiginlega er svarið fólgið í því að hætta að gera málamiðlanir, eins langt og það nær, að auka sanngjarnar kröfur um íslensku á öllum sviðum íslensks samfélags, að bjóða innflytjendur hjartanlega velkomna í málsamfélagið, að gera íslensku að sjálfgefna málinu alls staðar ásamt því auðvitað að auka framboð og möguleika til að tala framförum í málinu. Sé íslenska sjálfgefin, sé íslenska alls staðar verður það auðvitað bráðsmitandi og nær næsta víst að smita börnin jákvæðri íslenskuveiru. Það þarf að taka þetta mál föstum tökum og það þarf að aðhafast, málið reddast ekki nema því sé reddað af okkur öllum. Og góðu heilli er þetta frekar einfalt: Bara tala íslensku og passa upp á að leita allra leiða til að gera sig skiljanlegan (hér gefum við okkur að aðstæður til þess að læra málið séu sómasamlegar). Að gera sig skiljanlegan, verða eins konar almannakennari, má vel æfa, það má vel búa til íslenskuvænt umhverfi og er sannlega ekki úr vegi að byrja í skólunum og þá eyða þessari kerfisbundnu villu sem nú grasserar.

Tekið fram að málið er undirrituðum skylt. Börn hans eru útlendingar, innflytjendur, ekkert þeirra er fætt á Íslandi.

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, fyrrverandi verkefnastjóri verkefnisins Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag á Ísafirði




Skoðun

Skoðun

Jóla­kötturinn, ert það þú?

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×