Veður

Hlýnar í veðri og gæti orðið flug­hált

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður núll til fimm stig að deginum.
Hiti á landinu verður núll til fimm stig að deginum. Vísir/Vilhelm

Skil frá lægð á Grænlandshafi ganga nú frá vestri til austurs yfir landið og fylgir þeim suðaustlæg átt, víða kaldi eða strekkingur og rigning eða slydda með köflum, en snjókoma inn til landsins.

Á vef Veðurstofunnar segir að þá hlýni einnig í veðri og geti orðið flughált á stöku stað á suðvestanverðu landinu í morgunsárið.

„Að baki skilunum tekur við hæg suðvestlæg átt með smáskúrum, um hádegisbil vestanlands en undir kvöld eystra. Hiti 0 til 5 stig að deginum.

Fremur hæg breytileg átt á morgun og víða slydduél eða él, en yfirleitt bjartviðri á Suðausturlandi. Kólnar heldur í veðri.

Annað kvöld er útlit fyrir vaxandi austanátt. Á fimmtudag gengur í norðaustan allhvassan eða hvassan vind með snjókomu, en stormur við suðurströndina,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Breytileg átt 3-10 m/s og él eða slydduél, en yfirleitt þurrt og bjart suðaustantil. Hiti um eða undir frostmarki. Vaxandi austanátt við suðurströndina um kvöldið.

Á fimmtudag: Norðaustan 13-20, en stormur við suðausturströndina. Víða snjókoma eða slydda, en úrkomuminna vestanlands. Hiti í kringum frostmark fyrir norðan, en 1 til 6 stig sunnantil.

Á föstudag: Norðan 10-15 og snjókoma eða él, en þurrt sunnan heiða. Dregur úr ofankomu og vindi síðdegis. Kólnar í veðri.

Á laugardag: Breytileg átt 3-8 og víða úrkomulítið, en snjókoma syðst. Frost 2 til 14 stig, kaldast inn til landsins fyrir norðan.

Á sunnudag: Útlit fyrir ákveðna austlæga átt með slyddu eða snjókomu og hlýnandi veðri.

Á mánudag (fullveldisdagurinn): Norðaustlæg eða breytileg átt og slydda eða snjókoma með köflum. Hiti í kringum frostmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×