Innlent

Á­kærður fyrir til­raun til manndráps í Reykja­nes­bæ

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árásin átti sér stað í Reykjanesbæ í júní.
Árásin átti sér stað í Reykjanesbæ í júní. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og hótanir í Reykjanesbæ í júní síðastliðnum. Fórnarlambið var karlmaður á sjötugsaldri en krafist er miskabóta upp á fimmtu milljón króna fyrir hönd hans.

Árásin var gerð laugardagskvöldið 23. júní og er árásarmaðurinn sagður hafa hótað eldri manninum lífláti og skömmu síðar reynt að svipta hann lífi með því að leggja ítrekað til hans með hníf í höfuð, búk og útlim.

Eldri maðurinn hlaut djúpan skurð á innanverðum hægri framhandlegg og fjölmarga aðra styttri skurði um allan líkamann, svo sem á kvið, eyra, hálsi og fingrum. Hann var fluttur á Landspítalann með hraði með meðvitund.

Ákærða er einnig gefið að sök brot á fíkniefna- og vopnalögum með því að hafa verið með á heimili sínu marijúana, amfetamín, tóbaksblandað kannabis og alls kyns frammistöðubætandi töflur. Þá fundust haglaskot á heimili hans.

Málið er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjaness.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×