Fótbolti

Ronaldo slapp við bann á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo vildi endilega ræða við Heimi Hallgrímsson eftir rauða spjaldið sem hann fékk á móti Írum. Fróðlegt verður að sjá 5. desember hvort liðin gætu mögulega mæst á HM, komist Írland á mótið.
Cristiano Ronaldo vildi endilega ræða við Heimi Hallgrímsson eftir rauða spjaldið sem hann fékk á móti Írum. Fróðlegt verður að sjá 5. desember hvort liðin gætu mögulega mæst á HM, komist Írland á mótið. Getty/Michael P Ryan

Rauða spjaldið sem Cristiano Ronaldo fékk á móti lærisveinum Heimis Hallgrímssonar fyrr í þessum mánuði, í 2-0 tapi Portúgals gegn Írlandi, mun ekki hafa áhrif á þátttöku hans á HM í fótbolta næsta sumar.

Aganefnd FIFA hefur nú úrskurðað Ronaldo í eins leiks bann sem þýðir að hann hefur þegar tekið út leikbannið, í 9-1 sigrinum gegn Armeníu þar sem Portúgalar tryggðu sig endanlega inn á HM.

Ronaldo fékk rauða spjaldið fyrir olnbogaskot á 60. mínútu leiksins við Íra í Dublin, þegar staðan var þegar orðin 2-0. Brotið má sjá hér að neðan.

Hann klappaði hæðnislega eftir dóminn og gekk svo rakleitt að Heimi Hallgrímssyni og vildi segja við hann nokkur orð. Síðar kom í ljós að Ronaldo var þar að segja Heimi hversu sniðugt það hefði verið hjá Eyjamanninum að hafa áhrif á dómarann í aðdraganda leiksins, með því að segja að Ronaldo hefði haft mikil áhrif á dómarann í Lissabon í fyrri viðureign þjóðanna.

„Hann sagði þetta við mig þegar hann var að labba út af, að það hefði verið sniðugt og kenndi dómaranum eða einhverjum um. En þetta var bara hans kjánaskapur að ráðast á okkar leikmann,“ sagði Heimir.

Ronaldo og félagar fá að komast að því 5. desember hvaða liðum þeir mæta á HM, þegar dregið verður í riðla fyrir mótið sem nú telur í fyrsta sinn 48 þjóðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×