Erlent

Keyrði þvert yfir Banda­ríkin til að skjóta tvo her­menn

Samúel Karl Ólason skrifar
Til stendur að senda fimm hundruð þjóðvarðliða til Washington DC, til viðbótar við þá sem eru þar fyrir.
Til stendur að senda fimm hundruð þjóðvarðliða til Washington DC, til viðbótar við þá sem eru þar fyrir. AP Photo/Anthony Peltier)

Afganski maðurinn sem grunaður er um að hafa skotið tvo þjóðvarðliða skammt frá Hvíta húsinu í gær keyrði þvert yfir Bandaríkin til að gera árásina. Tilefni árásarinnar liggur ekki fyrir en maðurinn er sagður hafa starfað með Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) í Afganistan á árum áður og fékk hæli fyrr á þessu ári.

Maðurinn hefur verið nafngreindur og heitir Rahmanullah Lakanwal. Hann skaut hermennina með .357 Smith & Wesson marghleypu. Báðir eru þeir enn sagðir í alvarlegu ástandi en Lakanwal var einnig skotinn og er á sjúkrahúsi. Hann er ekki í lífshættu en hann stendur frammi fyrir ákærum fyrir morðtilraunir og vopnaburð.

Mögulegt er, samkvæmt AP fréttaveitunni, að hann verði ákærður í fleiri liðum seinna meir.

Fréttakona Fox News segir að á árum áður hafi Lakanwal, sem er 29 ára gamall, verið meðlimur í afganskri sérsveit sem barðist gegn hryðjuverkastarfsemi og var undir stjórn CIA. Þá er hann sagður hafa tekið þátt í bardögum í Kandahar-héraði í Afganistan, en hörðustu bardagar hins langa stríðs í Afganistan fóru fram þar.

Lakanwal var fluttur til Bandaríkjanna í ágúst 2021, þegar Kabúl féll í hendur Talibana og fékk hæli í apríl.

Tugir þúsunda Afgana voru fluttir til Bandaríkjanna um svipað leyti og Lakanwal en Donald Trump, forseti, hefur boðað að staða þeirra í Bandaríkjunum verði tekin til endurskoðunar. Þá er búið að stöðva allar dvalarleyfisveitingar til fólks frá Afganistan.

Sjá einnig: Fyrirskipar ítarlegar rannsóknir á öllum Afgönum í Bandaríkjunum

Samkvæmt AP hefur Lakanwal búið í Washington-ríki á vesturströnd Bandaríkjanna, ásamt eiginkonu og fimm börnum. Þaðan keyrði hann þvert yfir Bandaríkin til Washington DC, þar sem hann skaut hermennina, tvítuga konu og 24 ára mann.

Árásin er rannsökuð af Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) en Kash Patel, yfirmaður stofnunarinnar, segir að hún sé rannsökuð sem hryðjuverk. Útsendarar FBI eru sagðir hafa gert húsleit víðsvegar um Bandaríkin og hefur Patel heitið því að engu verði til sparað við rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×