Innlent

Nýju sánurnar opnaðar á sögu­legum degi í Vestur­bænum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Svona lítur nýja svæðið í Vesturbæjarlauginni út.
Svona lítur nýja svæðið í Vesturbæjarlauginni út.

Nýja sánur verða opnaðar í Vesturbæjarlaug á þriðjudaginn þegar 64 ár verða liðin frá því laugin var opnuð almenningi. Borgarstjóri opnar sánurnar við hátíðlega athöfn og verður ókeypis í laugina um morguninn. Um er að ræða þrjár sánur, ein innrauð og tvær hefðbundnar. 

Töluverðar framkvæmdir hafa verið í Vesturbæjarlauginni undanfarin misseri með tilheyrandi lokununum. Nú heyrir til tíðinda að nýjar sánur eru tilbúnar og verður hulunni svipt af þeim á þriðjudagsmorgun klukkan hálf átta.

Af því tilefni verður frítt í laugina frá 07.00 til 10.00 þann dag, og léttar morgunveitingar og ljúfir tónar í boði. 

„Borgarstjóri mun opna nýju sánurnar við hátíðlega athöfn kl. 07.30 og eru öll hjartanlega velkomin,“ segir í tilkynningu. Útfærsla á nýjum sánum er sögð byggja á samráði við íbúa.

Vesturbæjarlaug var vígð 25. nóvember 1961 og opnuð almenningi 2. desember sama ár. 

„Það er því bæði ánægjulegt og táknrænt að ný og mikið endurbætt sánuaðstaða verði opnuð á sama degi – 64 árum síðar.“

Hönnun nýju sánurýmanna var í höndum Hebu Hertervig og Steinunnar Halldórsdóttur hjá VA arkitektum. 

„Þeim tókst að skapa nútímalegar, fallegar og notalegar sánur sem halda þó í upprunalegan anda og sérkenni mannvirkisins.“

Öllum er frjálst að fara í sánu en minnt er á að taka með handklæði til að sitja á. Umgengnisreglur í sánum er að finna á reykjavik.is/sundlaugar/oryggis-og-umgengnisreglur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×