Íslenski boltinn

Valur dregur sig úr Bose-bikarnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Valur átti að mæta KR í Bose-bikarnum á morgun.
Valur átti að mæta KR í Bose-bikarnum á morgun. Vísir/Guðmundur

Karlalið Vals í fótbolta hefur dregið sig úr Bose-bikarnum í fótbolta vegna slæmrar stöðu á leikmannahópi liðsins. Mikil meiðsli og veikindi eru í leikmannahópi liðsins í aðdraganda móts sem fer að stærstum hluta fram í desember.

Valur átti að sækja KR heim á Meistaravelli á morgun í fyrsta leik mótsins en það markar gjarnan upphaf undirbúningstímabilsins hjá fremstu félögum landsins.

Tilkynnt var um það á stuðningsmannasíðu KR í dag að leikurinn færi ekki fram þar sem Valur hefði dregið sig úr keppninni. KR myndi þess í stað leika æfingaleik við FH en FH-ingar eru í hinum riðli keppninnar.

Gareth Owen, tæknilegur stjórnandi knattspyrnudeildar Vals, staðfestir tíðindin við íþróttadeild.

Gareth Owen, tæknilegur stjórnandi knattspyrnudeildar Vals.Mynd/Valur

Hann segir að ákveðið hefði verið að draga Valsliðið úr keppni vegna mikilla veikinda auk meiðsla í hópi liðsins.

Valsmenn hófu æfingar aðeins seinna en önnur Bestu deildar lið sökum þeirra breytinga sem urðu á þjálfarateymi liðsins en því var öllu skipt út í vetur. Lítilsháttar meiðsl hafa tekið sig upp þegar æfingar fóru af stað af fullum krafti í vikunni.

Verandi nýkomnir af stað með sitt undirbúningstímabil hafi nýtt þjálfarateymi ákveðið, heilsu leikmanna vegna, að best væri að skuldbinda sig ekki við komandi leiki.

Valur átti að mæta KR á morgun og Stjörnunni viku síðar í þriggja liða A-riðli mótsins.

Líkt og áður segir mætir KR liði FH í æfingaleik á morgun þess í stað og munu KR og Stjarnan því að líkindum spila innbyrðis úrslitaleik um sigur í A-riðli sem telur þá aðeins tvö lið.

Í B-riðli mótsins eru Víkingur, ÍA og FH. Víkingur og ÍA eigast við í Víkinni klukkan 14:00 á morgun.

Nánari upplýsingar um Bose-mótið má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×