Fótbolti

Ó­heppnin eltir Éder Militao: Frá í nokkra mánuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Éder Militao var sárþjáður þegar hann yfirgaf völlinn í leik Real Madrid og Celta Vigo í gær.
Éder Militao var sárþjáður þegar hann yfirgaf völlinn í leik Real Madrid og Celta Vigo í gær. getty/Maria Gracia Jimenez

Éder Miliato, varnarmaður Real Madrid, meiddist í tapinu fyrir Celta Vigo í spænsku úrvalsdeildinni í gær og verður frá keppni næstu 3-4 mánuðina.

Real Madrid tapaði fyrir Celta Vigo á Santiago Bernabéu í gær, 0-2. Militao var í byrjunarliði Madrídinga en fór meiddur af velli um miðjan fyrri hálfleik. Antonio Rüdiger tók stöðu hans.

Í ljós kom að Militao meiddist illa aftan í læri og verður frá keppni í allt að fjóra mánuði.

Militao hefur verið afar óheppinn með meiðsli en hann sleit krossband í hné tvö ár í röð og þetta er þriðja tímabilið í röð sem Brassinn verður fyrir alvarlegum meiðslum.

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Xabis Alonso, knattspyrnustjóra Real Madrid, en hann þykir vera valtur í sessi eftir misjafnt gengi undanfarnar vikur. 

Samkvæmt El Mundo héldu hæstráðendur hjá Real Madrid neyðarfund eftir tapið fyrir Celta Vigo og talið er að ef illa fer hjá liðinu gegn Manchester City í Meistaradeild Evrópu á miðvikudaginn verði Alonso látinn taka pokann sinn.

Militao kom til Real Madrid frá Porto 2019. Hann hefur leikið tæplega tvö hundruð leiki fyrir Real Madrid sem er í 2. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 36 stig, fjórum stigum á eftir toppliði Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×