Fótbolti

„Hinn ís­lenski Harry Kane“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra María Jessen fagnar þrennu sinni í leikslok á Hamborg í gær.
Sandra María Jessen fagnar þrennu sinni í leikslok á Hamborg í gær. @fckoeln_frauen

Íslenska landsliðskonan Sandra María Jessen fór á kostum í þýsku bundesligunni í gærkvöldi og skoraði þrennu í 4-1 sigri Köln á Hamburger SV.

Sandra María hefur skorað átta mörk í deildinni og er markahæst ásamt nokkrum öðrum.

Sandra hefur verið einstaklega drjúg í útileikjum liðsins en hún hefur skorað sjö af átta mörkum sínum á útivelli og alls sjö af níu útivallarmörkum liðsins á leiktíðinni.

Hún skoraði fyrsta markið með skalla, svo afgreiddi hún boltann af yfirvegun og innsiglaði síðan sigurinn undir blálokin. Sandra átti líka stóran þátt í fjórða marki síns liðs.

Sandra varð þarna fyrsta íslenska konan til að skora þrennu í bundesligunni og aðeins þriðji Íslendingurinn til að ná því á eftir Atla Eðvaldssyni og Alfreði Finnbogasyni.

Fólkið í Köln er líka ánægt með okkar konu og kölluðu hana „Hinn íslenska Harry Kane“ við myndband af Söndu fagna sigrinum. Þar mátti heyra liðfélaga Söndru kalla hana Harry Kane sem hefur raðað inn mörkum fyrir karlalið Bayern München síðan hann kom til Þýskalands.

Það hefur Sandra líka gert enda komin með átta mörk í aðeins tólf deildarleikjum og er síðan með tvö bikarmörk að auki. Hún hefur alls skorað 22 mörk á árinu því hún skoraði tólf deildar- og bikarmörk fyrir Þór/KA áður en hún fór út.

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×