Innlent

Komust yfir mynd­band af slysinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Hluta Suðurlandsbrautarnnar var lokað vegna slyssins í gær.
Hluta Suðurlandsbrautarnnar var lokað vegna slyssins í gær. Vísir/Vilhelm

Atburðarásin vegna alvarlegs slyss á Suðurlandsbraut í gærmorgun, þar sem ekið var á fullorðna konu, er farin að skýrast. Lögreglan hefur myndband af slysinu til skoðunar og hefur verið rætt við vitni að slysinu.

Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segir í samtali við fréttastofu að rannsókn miði vel. Myndin af því hvernig slysið átti sér stað sé farin að skýrast.

Konan, sem er rúmlega áttræð að aldri, varð fyrir bíl sem ekið var á Suðurlandsbraut í vestur þegar slysið varð. Hún var þá á göngu yfir gönguljósin til móts við Hilton Nordica-hótelið. Konan slasaðist alvarlega og var flutt á sjúkrahús til aðhlynningar.

Ásmundur segir frekari upplýsingar um líðan konunnar ekki liggja fyrir.

Fullorðinn einstaklingur, karlmaður á níræðisaldri, mun hafa ekið bílnum og var í gær ekki talið að viðkomandi hafi verið undir áhrifum eða verið í síma sínum. Þá hafi virst sem aðstæður hafi verið góðar á vettvangi en Ásmundur segir tæknideild lögreglunnar muni skila skýrslu um vettvanginn.


Tengdar fréttir

Eldri kona stórslösuð og vitni gefa sig fram

Vitni hafa sett sig í samband við lögreglu vegna alvarlegs slyss á Suðurlandsbraut um tíuleytið í morgun þegar ekið var á gangandi vegfaranda. Um var að ræða fullorðna konu sem er alvarlega slösuð.

Ekki búið að bera kennsl á þann sem ekið var á

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur að rannsókn alvarlegs umferðarslyss á Suðurlandsbraut í morgun þar sem ekið var á einstakling á göngu við gönguljós. Lögregla leitar að vitnum að atvikinu.

Alvarlegt slys á Suðurlandsbraut

Alvarlegt slys varð við gönguljós á Suðurlandsbraut vestan við Reykjaveg um klukkan 10 í morgun þegar ekið var á gangandi vegfaranda. Tveir sjúkrabílar voru sendir á svæðið samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði og var einn fluttur á slysadeild. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×