Innlent

Lífsýni úr öðrum manni nýju sönnunar­gögnin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn fannst látinn á heimili sínu í Kársnesi.
Maðurinn fannst látinn á heimili sínu í Kársnesi. Vísir/Vilhelm

Karlmaður sem aftur er kominn á bak við lás og slá í tengslum við rannsókn lögreglu á mannsláti í Kópavogi í lok nóvember er frá Grikklandi. Lífsýni á hnífi er lykilgagn í málinu.

Það var sunnudaginn 30. nóvember sem karlmaður fannst látinn á heimili sínu í Kársnesinu í Kópavogi. Nágrannar fylgdust með lögreglubílum drífa að og var tæknideild lögreglu að störfum í húsinu í lengri tíma.

Samkvæmt heimildum RÚV hafði nákominn aðili undrast um manninn sem er af portúgölskum uppruna. Sá hafði ekki náð í hann í hálfan annan sólarhring. Grískur félagi mannsins var handtekinn nokkrum dögum síðar og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Honum var sleppt í innan við sólarhring áður en hann var aftur úrskurðaður í gæsluvarðhald eftir að ný gögn komu á borð lögreglu.

Samkvæmt heimildum RÚV er um að ræða lífsýni úr öðrum karlmanni en hinum látna sem fundust á hnífi sem er meðal rannsóknargagna. Samkvæmt heimildum Vísis voru miklir áverkar á hálsi hins látna sem óljóst var hvort hann hefði veitt sér sjálfur eða einhver annar verið þar á ferðinni. RÚV segir hinn grunaða hafa verið með minniháttar áverka á sér en félagarnir hafi verið saman á föstudeginum helgina sem hann fannst.

Elín Agnes Eide Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að beðið sé eftir niðurstöðum úr rannsóknum á gögnum sem lögregla hefur undir höndum. Hún geti ekki tjáð sig frekar um málið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×