Innlent

Opna fyrir um­ferð um „fyrstu hrað­braut á Ís­landi“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra opnaði veginn.
Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra opnaði veginn. Vísir/Bjarni

Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, opnuðu formlega nýja tvöföldun á Reykjanesbraut í dag. Verklok eru áætluð í júní 2026 en nú þegar hefur verið opnað fyrir umferð um brautina.

Í dag var opnað fyrir umferð um nýjan tvöfaldan kafla á Reykjanesbrautinni en hann nær frá Krýsuvíkurvegi að enda fjögurra akreina Reykjanesbrautarinnar á Hrauni vestan Straumsvíkur. 

Við opnunina fullyrti Bergþóra að Reykjanesbrautin væri mikilvægasti vegur landsins. Þá sagði Eyjólfur að með tvöfölduninni væri brautin orðin að fyrstu hraðbraut Íslands.

Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni hefur meðtalsumferð um brautina aukist jafnt og þétt en árið 2024 fóru 21.500 bílar um brautina á dag. Því var talið mikilvægt að aðskilja akstursstefnurnar á veginum til að auka öryggi vegfarenda.

Vegurinn var breikkaður í 2 +2 aðskildar akreinar, breytingar gerðar á mislægum gatnamótum við álverið í Straumsvík og útbúnar vegtengingar að Straumi og Álhellu. Einnig voru gerð undirgöng fyrir gangandi og hjólandi rétt austan við álverið sem og eftirlitsstaðir fyrir umferðareftirlit beggja megin Reykjanesbrautar, austan við Straumsvík.

Verkefnið var boðið út árið 2023 og voru Íslenskir aðalvertakar fengnir í verkið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×