Fótbolti

Elías á toppnum en Hákon tapaði í Sviss

Sindri Sverrisson skrifar
Elías Rafn Ólafsson varði mark Midtjylland gegn Genk í kvöld.
Elías Rafn Ólafsson varði mark Midtjylland gegn Genk í kvöld. Getty/Archivio Massimo

Elías Rafn Ólafsson hélt markinu hreinu fyrir Midtjylland í kvöld og danska liðið er á toppi Evrópudeildarinnar, eftir 1-0 sigur gegn Genk. Hákon Arnar Haraldsson var einnig á ferðinni með franska liðinu Lille sem tapaði 1-0 í Sviss.

Gue-sung Cho skoraði eina mark Midtjylland í kvöld, á sautjándu mínútu, og það dugði til með Elías öruggan í marki heimamanna.

Midtjylland er því með 15 stig eftir sex leiki, stigi fyir ofan næstu lið nú þegar aðeins tvær umferðir eru eftir og það gæti vel dugað til að liðið komist beint inn í 16-liða úrslit.

Hákon og félagar í Lille lentu í erfiðum leik gegn Young Boys í Sviss, sérstaklega eftir að Ayyoub Bouaddi fékk rautt spjald á 32. mínútu, þó að vítaspyrna Chris Bedia væri þá varin. Darian Males kom heimamönnum yfir á 61. mínútu og það reyndist eina markið.

Tanguy Zoukrou, leikmaður Young Boys, nældi sér í tvö gul spjöld og þar með rautt í uppbótartíma en það kom ekki að sök.

Kolbeinn fékk ekki að mæta Forest

Kolbeinn Birgir Finnsson kom ekkert við sögu hjá Utrecht sem tapaði 2-1 á heimavelli gegn Nottingham Forest. Kolbeinn fylgdist með af bekknum þegar Arnaud Kalimuendo kom Forest yfir á 52. mínútu og Mike van der Hoorn jafnaði á 73. mínútu. Skömmu fyrir leikslok skoraði svo Igor Jesus sigurmark Forest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×