Skoðun

Ríkis­stjórn grefur undan sam­keppni, þú munt borga meira

Grétar Ingi Erlendsson, Erla Sif Markúsdóttir og Guðbergur Kristjánsson skrifa

Fákeppni hefur lengi ráðið för í íslenskum sjóflutningum. Faxaflóahafnir ásamt Eimskip og Samskip hafa haft yfirráð á markaðnum og afleiðingarnar eru öllum kunnar: misnotkun á markaðsráðandi stöðu, samráð sem metið var til 62 milljarða króna og 17 milljarða auknar greiðslur heimila vegna hækkunar verðtryggðra lána. (Tjón af samráði skipafélaganna metið á 62 milljarða - RÚV.is). Til að sporna gegn þessu lagði síðasta ríkisstjórn grunn að sterkari samkeppni með uppbyggingu vöruhafnar í Þorlákshöfn. Nú hyggst ný ríkisstjórn hins vegar hverfa frá þeirri stefnu og taka skref aftur í átt til gamla fákeppnismódelsins. Íslendingar tapa, risarnir hagnast.

Á í alvöru að hverfa aftur til fákeppni?

Nú boðar ríkisstjórnin, undir formerkjum þess að „ræsa vélarnar“, algert framkvæmdastopp í Þorlákshöfn. Það merkir að sókn gegn fákeppni sé stöðvuð. Við undirrituð, fulltrúar í stjórn hafnarinnar í Þorlákshöfn, höfum gagnrýnt fyrirhugaðar breytingar á samgönguáætlun 2026–2040, ekki vegna formsatriða heldur vegna grundvallarspurningar: „Ætlar ríkið að fylgja tilmælum samkeppnisyfirvalda og tryggja raunverulega samkeppni, eða snúa til baka í fákeppni á sjóflutningum?“

Jafnræði í sjóflutningum er hagsmunamál þjóðarinnar

Samkeppniseftirlitið hefur ítrekað bent á að smærri keppinautar þurfi raunhæfan aðgang að fullnægjandi hafnaraðstöðu. (Alit-1_2023-Samkeppnishindranir-i-flutningum.pdf). Þorlákshöfn er eina höfnin sem getur veitt slíkt aðgengi og skapað mótvægi við Faxaflóahafnir. Tvö öflug skipafélög starfa nú í Þorlákshöfn og hafa þau þegar eflt samkeppni, lækkað flutningskostnað og skilað ávinningi til fyrirtækja og heimila. Þetta hefur aðeins verið mögulegt vegna samstillts átaks ríkis og sveitarfélagsins. Vilji sveitarfélagsins er óbreyttur. Ef ríkið stígur til hliðar er ljóst hvert ferlið leiðir, aftur inn í fákeppni.

Framkvæmdir eru óumdeild lykilforsenda

Ný og stærri skip Smyril Line eru í smíðum og koma til þjónustu á næsta ári. Þeim er ætlað að efla samkeppni í flutningum til og frá Íslandi. Þessi skip, sem ákveðið var að byggja á grundvelli gildandi samgönguáætlunar, geta ekki nýtt Þorlákshöfn svo vel sé nema ráðist sé í framkvæmdir. Frestun myndi grafa undan fjárfestingum, veikja samkeppni og draga úr trúverðugleika stjórnvalda. Þetta er prófsteinn á það hvort ríkið standi við eigin áætlanir og eigin orð.

Vegakerfi sem bregst og hindrar samkeppni

Ástand Þrengslavegar og Þorlákshafnarvegar er heldur ekki boðlegt. Á síðustu fjórum árum hafa þungatakmarkanir á Þrengslavegi staðið í 106 daga, sem jafngildir rúmlega fjórum heilum vinnuvikum á ári. Engar sambærilegar leiðir á suðvesturhorninu hafa sætt takmörkunum. Þetta dregur úr trausti, hækkar kostnað og hamlar starfsemi skipafélaga í Þorlákshöfn. Ástandið þjónar aðeins þremur stórum aðilum: Faxaflóahöfnum og þeim fákeppnisrisum sem þar hafa byggt yfirburðastöðu sína.

Ákall sem Alþingi verður að taka alvarlega

Við skorum á Alþingi og Umhverfis- og samgöngunefnd að endurskoða Samgönguáætlunina og tryggja fagleg og ábyrg vinnubrögð. Uppbygging Þorlákshafnar og aðliggjandi vega verður að halda áfram án tafar, í samræmi við markmið Samkeppniseftirlitsins og í þágu þjóðarhagsmuna. Þetta má ekki snúast um sérhagsmuni einstakra aðila. Þetta verður að snúast um íslensk heimili, íslenskt atvinnulíf og þjóðarbúið sjálft. Þorlákshöfn hefur sýnt að hún getur undið ofan af rótgróinni fákeppni.

Nú er komið að stjórnvöldum að sýna að þau standi með samkeppni, með neytendum og þar með almannahag.

Höfundar eru fulltrúar í Hafnar- og framkvæmdarnefnd Ölfuss.




Skoðun

Sjá meira


×