Körfubolti

Curry sneri aftur með miklum látum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Steph Curry var í banastuði í nótt en það dugði Warriors ekki til sigurs. 
Steph Curry var í banastuði í nótt en það dugði Warriors ekki til sigurs.  y ELSA / GETTY IMAGES NORTH AMERICA / Getty Images via AFP

Eftir að hafa setið utan vallar síðustu tvær vikur vegna meiðsla mætti Stephen Curry, leikstjórnandi Golden State Warriors, aftur út á gólf í gærkvöldi og gerði það með látum.

Curry byrjaði á því að hitta úr utan vallar skotinu sem hann tekur alltaf í upphitun. Skotið var sérlega langt að þessu sinni, frá leikmannagöngunum eins og venjulega, en ekki í körfuna sem var nær honum heldur í hina körfuna, hinumegin á vellinum.

Leikstjórnandinn setti síðan upp sóknarsýningu gegn Minnesota Timberwolves og skoraði 39 stig á aðeins 32 spiluðum mínútum. Það dugði þó ekki til að koma Warriors, sem hafa verið í vandræðum á tímabilinu, aftur á sigurbraut.

Liðið leiddi lengst af en fékk á sig 39 stig í fjórða leikhluta og niðurstaðan varð 127-120 tap gegn Timberwolves, sem söknuðu síns besta leikmanns Anthony Edwards.

„Vörnin olli vonbrigðum í kvöld“ sagði þjálfari Warriors, Steve Kerr.

Því þótt Curry hafi snúið aftur, og skilað miklu sóknarlega, vantaði tvo mikilvægustu varnarmenn liðsins. Draymond Green og Al Horford voru báðir að glíma við meiðsli í gær, Rudy Gobert og Julius Randle til mikillar skemmtunar en þeir skoruðu samanlagt 51 stig og gripu 23 fráköst fyrir Timberwolves.

Warriors hafa nú tapað jafnmörgum leikjum og liðið hefur unnið, þrettán af hvorri sort. Timberwolves eru með sextán sigra og níu töp. Liðin eru í 6. og 8. sæti vesturdeildar NBA.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×