Sport

„Frammi­staðan í fyrri hálf­leik var hræði­leg og okkur bara til skammar“

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Jónatan Magnússon, þjálfari KA/Þór.
Jónatan Magnússon, þjálfari KA/Þór. Vísir/Hulda Margrét

KA/Þór töpuðu með 15 marka mun í leik gegn Haukum á Ásvöllum í 10. umferð Olís deild kvenna í dag. KA/Þór fór inn í hálfleik 14 mörkum undir og sagði Jónatan Magnússon, þjálfari liðsins, að frammistaðan í fyrri hálfleik hafi verið liðinu til skammar.

„Ég held að það sem fór úrskeiðis var það hvernig við mættum sem lið inn í þennan leik. Við vorum undir í öllu, við náum aldrei að brjóta á þeim í heilan hálfleik sem er náttúrulega eitthvað sem við getum ekki staðið fyrir. Við vorum á eftir í öllu, við urðum eitthvernveginn litlar. Heildarframmistaðan í fyrri hálfleik var hræðileg og okkur bara til skammar.“

„Það fór allt úrskeiðis í fyrri hálfleik. Það er eitthvað sem ég sem þjálfari þarf að bera ábyrgð á því að uppleggið okkar í fyrri hálfleik segir sig sjálft, að vera 14 mörkum undir.“

Liðið var 14 mörkum undir í fyrri hálfleik og á meðan allt gekk upp hjá heimakonum að þá gekk lítið upp hjá gestunum.

„Við töluðum um það í hálfleik þar sem leikurinn var farinn að við myndum allavega koma hérna inná og taka á þeim og við fengum allavega það.“

Það varð viðsnúningur á liðinu í síðari hálfleiknum en leikurinn var þá heldur jafnari. Leiknum lauk þó með 15 marka mun, 35-20.

„Það var allt annað að horfa á liðið mitt í síðari hálfleik. Ég vona eins og ég sagði við stelpurnar að þetta gerist aldrei aftur að ég upplifi það að við séum karakterlaus og við séum litlar í okkur, ég vona að það gerist ekki aftur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×