Skoðun

Þrjú slys á sama stað en svarið er: Það er allt í lagi hér!

Róbert Ragnarsson skrifar

Ég hef hitt marga borgarbúa undanfarnar vikur til að heyra hvaða væntingar þau hafa til Reykjavíkurborgar. Þær væntingar eru ekki svo flóknar. Að þjónustan virki og innviðir haldi utan um daglegt líf. Að fólk fái það sem það hefur borgað fyrir með sköttunum. Að sorp sé tekið, snjór ruddur, götulýsing kveikt og umferðin örugg. Þetta eru einfaldar og eðlilegar væntingar til borgar sem er nútímaleg og vel rekin.

Þegar þrjú umferðarslys verða á sama stað í Laugardalnum, á gatnamótum sem „eiga“ að vera rétt hönnuð samkvæmt bókinni, ætti það að vera merki um að eitthvað gangi ekki upp í raunheimum. Samt hafa svör borgarinnar verið á þá leið að ef staðlarnir segja að allt sé í lagi, sé engin þörf á breytingum. Slysatölurnar segja annað. Reynslan og raunveruleikinn á að ráða ferðinni, ekki ,,computer says no“.

Staðlar og leiðbeiningar hjálpa til við að hanna örugg mannvirki og skipuleggja ferla. Þeir byggja á rannsóknum og reynslu og eru mikilvæg verkfæri í skipulagi og framkvæmd. Þeir eiga að styðja við góða ákvarðanatöku, ekki koma í stað hyggjuvits og reynslunnar. Hyggjuvitið kom með þrýstingi foreldra í hverfinu sem virðist hafa áhrif samkvæmt nýjustu fréttum.

Annað dæmi eru gatnamótin við Höfðabakka. Þau voru ekki talin nægilega vel hönnuð samkvæmt leiðbeiningum, en reyndust virka vel í raun. Samt var ráðist í kostnaðarsamar breytingar sem fáir töldu þörf á. Árangurinn er hægari umferð og sóun á peningum.

Íbúar hafa ekki þolinmæði fyrir svona vinnubrögðum. Staðlar eru góðir þrælar en slæmir herrar. Þegar kerfið festist í „computer says no“ hugsun tapast sveigjanleikinn, og hið praktíska hyggjuvit sem þarf til að reka góða þjónustu og nýta peninga vel.

Það er hlutverk stjórnmálafólks að finna góðar lausnir fyrir borgarbúa í samstarfi við sérfræðinga. Ég vil leiða öflugan hóp Viðreisnarfólks sem er tilbúinn í að gera nákvæmlega það. Að hlusta, aðlaga og taka bestu ákvörðunina fyrir hagsmuni borgarbúa.

Höfundur er stjórnmálafræðingur Msc.og frambjóðandi í 1. sæti í prófkjöri Viðreisnar í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×