Erlent

Það helsta úr fyrsta skammti Epstein-skjalanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandar'ikjanna, er fyrirferðermikill í fyrsta skammti Epstein-skjalanna.
Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandar'ikjanna, er fyrirferðermikill í fyrsta skammti Epstein-skjalanna.

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna birti í gær þúsundir skjala sem tengjast máli Jeffreys Epstein, barnaníðingsins fræga og látna. Tiltölulega fljótt þótti þó ljóst að skjölin sem birt voru stæðust ekki væntingar margra um að varpa frekara ljósi á málið.

Skjölin innihalda þúsundir ljósmynda og bæta í raun litlu við þær opinberu upplýsingar sem þegar liggja fyrir um Epstein og mál hans. Skjölin varpa ekki heldur frekara ljósi á tengingar hans við auðuga og áhrifamikla menn vestanhafs eða annarsstaðar í heiminum.

Ráðuneytið átti, samkvæmt lögum sem Demókratar í minnihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings fengu aðstoð nokkurra þingmanna Repúblikanaflokksins til að koma í gegn, að birta öll gögn sem ráðuneytið hefur aflað í tengslum við rannsóknir í garð Jeffreys Epstein og annarra sem honum tengjast í gegnum árin.

Sjá einnig: „Demókratar munu sjá eftir þessu“

Ríkisstjórn Trumps hefur frá því hann tók við völdum ekki viljað birta skjöl tengd Epstein, þrátt fyrir að Trump-liðar hafi í kosningabaráttunni ítrekað talað um að birta þau eftir að Trump yrði aftur forseti.

Eftir að ljóst varð að frumvarp Demókrata yrði að lögum skipaði Trump ráðuneytinu að rannsaka tengsl Epsteins við Demókrata, eins og Bill Clinton, fyrrverandi forseta.

Sjá einnig: Rannsaka tengsl Epstein við Clinton

Jeffrey Epstein og Michael Jackson.Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna

Lögunum nýju var ekki framfylgt að fullu í gær, heldur birti ráðuneytið hluta þeirra skjala sem til eru og höfðu upplýsingar í mörgum þeirra verið afmáðar eða huldar. Samkvæmt lögunum mátti eingöngu hylja upplýsingar eða myndir sem snúa að fórnarlömbum Epsteins og/eða fólki undir lögaldri.

Forsvarsmenn ráðuneytisins búast við því að birta öll gögnin fyrir áramót, samkvæmt AP fréttaveitunni. Þó nokkrir þingmenn hafa gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir að fylgja ekki lögunum.

Sjá einnig: Epstein-skjölin birt

Marina Lacerda, kona sem segir Epstein hafa brotið á sér þegar hún var fjórtán ára gömul lýsti yfir óánægju með fyrsta skammtinn frá ráðuneytinu. AP fréttaveitan hefur eftir henni að allt of mikið af upplýsingum hafi verið afmáðar og að óþörfu.

Margar myndir af Clinton

Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, er á mörgum myndum sem birtar voru í gær en óljóst er hvort það sé með vilja gert eða ekki. Talsmenn Donalds Trump í Hvíta húsinu hafa frá því í gær gert mikið úr því hve margar myndir af Bill Clinton eru í safninu.

Þá vantar einnig samhengi myndanna, eins og hefur gert þegar Demókratar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildarinnar hafa verið að birta myndir úr einkasafni Epsteins.

Sjá einnig: „En hún vill þúsund dali fyrir hverja stúlku“

New York Times hefur eftir talsmanni Clintons að Hvíta húsið hafi stýrt birtingu skjalanna til að draga athyglina frá nánum tengslum Trumps við Epstein á sínum tíma.

„Hvíta húsið hefur ekki falið þessi skjöl í marga mánuði einungis til þess að birta þau sent á föstudegi til að vernda Bill Clinton,“ sagði talskona forsetans fyrrverandi.

„Þetta snýst um að verja þau sjálf frá því sem kemur næst, eða frá því sem þau munu reyna að fela að eilífu.“

Trump og Epstein voru miklir vinir á árum áður en deildu um fasteign í Flórída árið 2004 og mun það hafa leitt til þess að þeir hættu að vera vinir. Í bók sem Epstein fékk í gjöf þegar hann varð fimmtugur árið 2003 var meðal annars bréf sem mun vera frá Trump.

Þar talaði Trump um sameiginlegt leyndarmál þeirra og að þeir ættu „ákveðna hluti sameiginlega“.

Utan um textann frá Trump hafði verið teiknuð gróf mynd af líkama konu svo undirskrift Trumps leit út eins og skapahár hennar. Trump heldur því fram að bréfið hafi verið falsað.

Lítið nýtt um Trump

Nafn Trumps kemur sjaldan fram í nýju skjölunum og liggur ekki fyrir hvort það eigi einnig við þau skjöl sem eru óbirt. Þegar nafn Trumps birtist í skjölunum lítur út fyrir að það sé að mestu í skjölum sem hafa áður verið opinberuð.

Svipaða sögu er að segja af myndum en þó Trump sjáist ánokkrumm þeirra virðist sem flestar hafi verið birtar áður og það mögulega fyrir löngu síðan.

Bill Clinton og Jeffrey Epstein.Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna

Stór hluti Epstein-skjalanna sem um ræðirhefura verið birtur opinberlega áður eða fjallað um þau í fjölmiðlum.

Líkur hafa verið leiddar að því að mögulega megi sjá nýjar upplýsingar í skjölum sem snúa að rannsóknum ákærudómstóla á Epstein og Ghislane Maxwell, kærustu hans og aðstoðarkonu til langs tíma. Hún situr í fangelsi fyrir að aðstoða hann við að brjóta á stúlkum og ungum konum um árabil.

Þá er einnig talið mögulegt að skjölin geti varpað frekara ljósi á umdeilt samkomulag sem Epstein gerði við saksóknara í Flórída á árum áður. Þá játaði hann að hafa haft mök við stúlku undir lögaldri og sat í fangelsi í einungis þrettán mánuði. Á þeim tíma höfðu tugir ungra kvenna sakað hann um að hafa brotið á sér.

Thomas Massie er einn þeirra Repúblikana sem gengu til liðs við Demókrata og þvinguðu ríkisstjórnina til að birta skjölin. Hann og aðrir hafa kvartað yfir því að engar upplýsingar um samkomulagið megi finna í skjölunum.

Epstein svipti sig lífi í fangelsi árið 2019. Hann var 66 ára gamall og hafði þá verið ákærður fyrir mansal og sakaður um að misnota stúlkur kynferðislega og jafnvel útvega áhrifamiklum vinum sínum eins og Andrési prins stúlkur til að misnota.

Ákæran byggði á störfum ákærudómstóls sem starfaði um sumarið 2019. AP fréttaveitan segir að einungis eitt vitni hafi rætt við kviðdómendur og það var útsendari frá Alríkislögreglu Bandaríkjanna. Kviðdómendur fengu einnig að sjá glærukynningu saksóknara og upplýsingar um símtöl Epsteins.

Kviðdómendur lögðu til að Epstein yrði ákærður þann 2. júlí. Hann svipti sig svo lífi í fangelsi þann 10. ágúst.

Eins og áður segir stendur til að birta fleiri skjöl á komandi dögum og vikum


Tengdar fréttir

Auðgaðist ævintýralega á svikum og prettum

Áður en Jeffrey Epstein var sakaður um að hafa brotið á fjölda stúlkna og ungra kvenna um árabil, hafði hann safnað umfangsmiklum auðæfum. Hvernig hann gerði það hefur aldrei verið ljóst en svo virðist sem hann hafi að mestu gert það með svikum og prettum.

Brestir í MAGA-múrnum

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, stefnir að því að halda nærri því vikulega fjöldafundi með stuðningsmönnum sínum. Gjá er sögð hafa myndast milli forsetans og flestra stuðningsmanna hans í MAGA-hreyfingunni, þó þeir standi enn við bakið á honum. Þessa gjá er forsetinn sagður vilja brúa.

Trump, Clinton, Gates og fleiri á nýjum Epstein-myndum

Demókratar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hafa birt nítján nýjar myndir úr dánarbúi barnaníðingsins Jeffreys Epstein. Á myndunum eru nokkrir auðugir, þekktir og áhrifamiklir menn eins og Donald Trump, Bill Clinton, Bill Gates, Richard Branson, Woody Allen og Steve Bannon.

Heimila nú birtingu gagna úr rann­sókn á Epstein

Bandarískur alríkisdómari hefur heimilað dómsmálaráðuneytinu að opinbera gögn frá störfum ákærudómstóls sem skoðaði vísbendingar og sönnunargögn gegn barnaníðingnum Jeffrey Epstein árið 2019. Í gær komst annar dómari að sambærilegri niðurstöðu um gögn úr rannsókn gegn Ghislaine Maxwell, fyrrverandi aðstoðarkonu og kærustu Epsteins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×