Enski boltinn

Ekkert farar­snið á Guardiola sem segir að City verði þó að vera undir­búið fyrir næstu skref

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Næsta sumar verður áratugur síðan Pep Guardiola tók við Manchester City.
Næsta sumar verður áratugur síðan Pep Guardiola tók við Manchester City. getty/Mike Morese

Pep Guardiola kveðst ánægður í starfi knattspyrnustjóra Manchester City og vill halda áfram hjá félaginu. Hann segir þó að City verði að vera reiðubúið undir það þegar hann stígur frá borði.

Guardiola hefur stýrt City frá 2016. Enginn stjóri í ensku úrvalsdeildinni hefur verið lengur í starfi en Spánverjinn. Núgildandi samningur Guardiolas við City rennur út eftir næsta tímabil.

„Ég er ánægður hérna. Ég vil halda áfram hérna. Hvað get ég sagt? Úrslitin stjórna alltaf öllu,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn West Ham United.

„Þegar þessum kafla lýkur mun félagið velja rétta manninn til að halda þessari ótrúlegu vegferð áfram. Það hafa verið margar sögusagnir síðustu ár en ég vil vera hérna. Við sjáum svo til í lok tímabils.“

Enzo Maresca, stjóri Chelsea, hefur verið nefndur til sögunnar sem mögulegur eftirmaður Guardiolas hjá City. Maresca var aðstoðarmaður Guardiolas hjá liðinu 2022-23.

City tekur á móti West Ham á Etihad í dag. Leikurinn hefst klukkan 15:00 og verður sýndur beint á Sýn Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×