Erlent

Níu skotnir til bana á krá

Samúel Karl Ólason skrifar
Árásin átti sér stað um klukkan eitt í nótt þegar um tólf menn byrjuðu að skjóta á fólk, að virðist af handahófi.
Árásin átti sér stað um klukkan eitt í nótt þegar um tólf menn byrjuðu að skjóta á fólk, að virðist af handahófi. AP/ Alfonso Nqunjana

Níu voru skotnir til bana og tíu særðir þegar hópur manna á tveimur bílum hóf skothríð á gesti krár í bæ nærri Johannesburg í Suður-Afríku í gærkvöldi. Mennirnir eru sagðir hafa skotið fjölda skota að gestum krárinnar og svo á fólk af handahófi þegar þeir keyrðu á brott.

Árásin átti sér stað um klukkan eitt í nótt, að staðartíma, í bænum Bekkersdal, sem er á svæði þar sem mikið er af gullnámum. AP fréttaveitan segir þetta aðra skotárás af þessu tagi sem gerð er í Suður-Afríku á þremur vikum.

Fyrr í þessum mánuði dóu tólf og særðust þrettán í skotárás á krá nærri Pretoria, höfuðborg Suður-Afríku.

Umfangsmikil leit að mönnunum stendur nú yfir en samkvæmt frétt BBC liggur tilefni árásarinnar ekki fyrir að svo stöddu.

Einn af yfirmönnum lögreglunnar á svæðinu sagði í samtali við Newzroom Afrika að árásarmennirnir hefðu verið vopnaðir skammbyssum og rifflum af gerðinni AK-47.

„Greyið fólkið var bara að njóta sín þegar menn komu og hófu skothríðina,“ sagði Fred Kekana.

Í fyrra voru framin nærri því 26 þúsund morð í Suður-Afríku, sem samsvarar meira en sjötíu morðum á dag. Þau eru fá löndin í heiminum þar sem tíðni morða er hærri en langflest morðanna eru framin með skotvopnum.

Lög um skotvopn þykja nokkuð ströng en embættismenn segja mikið magn ólöglegra vopna vera í Suður-Afríku.

Hér að neðan má sjá ítarlega umfjöllun Newzroom Afrika og myndefni frá vettvangi í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×