Innlent

Sló mann í höfuðið með gler­flösku á ís­firskum skemmti­stað

Atli Ísleifsson skrifar
Árásin átti sér stað á skemmtistað á Ísafirði 8. apríl 2023.
Árásin átti sér stað á skemmtistað á Ísafirði 8. apríl 2023. Vísir/Einar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í níu mánaða fangelsi fyrir að hafa slegið mann með glerflösku í höfuðið á skemmtistað á Ísafirði í apríl 2023.

Maðurinn var ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás en sá sem fyrir árásinni varð hlaut sentimetra langan V-laga skurð á enni og sömuleiðis blæðingar á kinn og höku.

Í dómnum segir að þegar aðalmeðferð hófst í desember hafi ákærði breytt afstöðu sinni til ákæru og játaði afdráttarlaust sök.

Dómari leit til ungs aldurs ákærða við ákvörðun refsingar en einnig kemur fram í dómnum að hann hafi farið í meðferð vegna vímuefnafíknar auk þess að hann hafi hafið nám í framhaldsskóla og virðist einbeittur í að snúa lífi sínu til betri vegar.

Á hinn bóginn var ekki litið fram hjá því að ákærði væri nú sakfelldur fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás sem beindist að höfði manns. Hann hefði tvívegis áður verið dæmdur fyrir sams konar brot, en þau hafi bæði verið framin áður en hann náði átján ára aldri og höfðu þau því ekki ítrekunaráhrif.

Árásarmaðurinn á nokkurn brotaferil að baki og mat dómari í málinu að hæfileg refsing væri níu mánaða fangelsi, en að fresta skyldi fullnustu refsingar og hún niður falla að tveimur árum liðnum, haldi maðurinn almennt skilorð. Um hegningarauka var að ræða þar sem maðurinn hafði áður hlotið skilorðsbundinn dóm árið 2022 og svo aftur árið 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×