Fótbolti

Glódís fram­lengir samninginn við Bayern

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Glódís Perla mun búa áfram í Bæjaralandi næstu árin.
Glódís Perla mun búa áfram í Bæjaralandi næstu árin.

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir hefur framlengt samning sinn við Þýskalandsmeistara Bayern Munchen til ársins 2028.

Glódís gekk til liðs við Bayern árið 2021 og hefur verið fyrirliði liðsins frá því 2024.

Á fjórum tímabilum í Bæjaralandi hefur hún orðið Þýskalandsmeistari þrisvar, bikarmeistari og Ofurbikarmeistari, ásamt því að spila á hverju tímabili í Meistaradeild Evrópu. 

Á síðasta ári var hún eini miðvörðurinn af þrjátíu leikmönnum sem hlutu tilnefningu til Gullboltans, verðlaun sem veitt eru besta knattspyrnufólki heims.

Glódís var kjörin Íþróttamaður ársins af samtökum íþróttafréttamanna á síðasta ári og er aftur tilnefnd til verðlaunanna í ár, eftir að hafa orðið tvöfaldur meistari með Bayern í vor og leitt íslenska landsliðið á Evrópumótinu í Sviss í sumar.

Mikil gleði ríkir nú í Munchen því Bayern hefur lagt mikið í kvennaliðið upp á síðkastið. Nýlega var tilkynnt um nýjan heimavöll sem verður tekin í notkun á næsta ári og Glódís er þriðji lykilleikmaður liðsins sem skrifar undir framlengdan samning upp á síðkastið. Pernille Harder og Magdalena Eriksson krotuðu einnig undir.

Framlengt því hún er framlenging af þjálfaranum

Yfirmaður íþróttamála hjá liðinu sparar heldur ekki stóru orðin þegar talað er um fyrirliðann.

„Þessi framlenging var algjört forgangsatriði hjá okkur“ sagði Francisco De Sá Fardilha.

„Mikilvægi hennar sést í hverjum einasta leik. Hvernig hún skipuleggur vörnina, stýrir línunni, skallar boltann og gefur hann frá sér, ásamt því að leiðbeina öllum leikmönnum. Hún er eins og framlenging af þjálfaranum, inni á vellinum“ bætti hann við.

Hefur vaxið í fyrirliðahlutverkinu

„Ég er mjög stolt og glöð að hafa verið hluti af þessu liði svona lengi og hlakka til að halda því áfram. Liðsandinn hér og andrúmsloftið er engu líkt. Ábyrgðin sem fylgir því að vera fyrirliði hefur hjálpað mér að vaxa, bæði sem leikmaður og manneskja. Við erum metnaðarfullt lið og viljum halda okkur á toppnum í Þýskalandi en stíga einnig framfaraskref í Meistaradeildinni“ sagði Glódís eftir að hafa skrifað undir samninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×