Erlent

Nýjar á­kærur á hendur Rus­sell Brand

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Breski grínistinn Russell Brand sætir nú sjö ákærum fyrir kynferðisbrot.
Breski grínistinn Russell Brand sætir nú sjö ákærum fyrir kynferðisbrot. AP

Nýjar ákærur hafa litið dagsins ljós á hendur skemmtikraftinum Russell Brand, þar sem hann er sakaður um eina nauðgun og tvö önnur kynferðisbrot. Þetta mun vera þriðja nauðgunin sem hann er sakaður um en hann hefur yfir höfði sér fimm aðrar ákærur um kynferðisbrot. Russell Brand hefur neitað alfarið sök í hinum fimm ákærunum.

Hin nýju meintu brot eiga að hafa átt sér stað árið 2009, og snúa þau að tveimur konum, en fjallað erum málið á vettvangi breska ríkisútvarpsins.

Hinn fimmtíu ára gamli Russell Brand mætir í dómsal 20. janúar næstkomandi til að svara fyrir nýju ákærurnar.

Réttarhöld munu fara fram í júní á næsta ári vegna ákæranna fimm sem áður höfðu komið fram, en hann hefur verið ákærður fyrir að hafa nauðgað konu í Bournemouth árið 1999, Fyrir að hafa ráðist kynferðislega á konu í Westminster í Lundúnum árið 2001, fyrir að hafa nauðgað konu í sama hverfi árið 2004 og fyrir að hafa ráðist kynferðislega á konu í Lundúnum á árunum 2004 og 2005.

Brand neitar sök í öllum þessum málum. Í apríl sagðist hann hafa verið hálfviti, eiturlyfja- og kynlífsfíkill, en aldrei nauðgari. Hann væri þakklátur að geta fengið að verja sig í réttarhöldum.

Lionel Idan, saksóknari í Suður-Lundúnum, segir í viðtali við Telegraph að hinar nýju ákærur snúi að frásögnum tveggja ótengdra kvenna um kynferðisbrot árið 2009.

„Saksóknarar okkar hafa komist að þeirri niðurstöðu að sönnunargögnin sem fyrir liggja í málinu ættu að duga til þess að fara með malið fyrir dóm.“

Konurnar sem Brand hefur verið ákærður um að hafa brotið gegn eru nú orðnar sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×