Handbolti

Ekkert spilað í vetur en gæti mætt Ís­landi í fyrsta leik á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Leo Prantner fagnar marki á HM fyrir tæpu ári þar sem hann varð markahæstur í ítalska liðinu.
Leo Prantner fagnar marki á HM fyrir tæpu ári þar sem hann varð markahæstur í ítalska liðinu. EPA/TIL BUERGY

Þjóðverjinn Bob Hanning hefur valið tuttugu manna landsliðshóp Ítalíu sem mætir Íslandi í fyrsta leik á EM í handbolta, í Kristianstad í Svíþjóð í janúar.

Leo Prantner, örvhentur leikmaður Þýskalandsmeistara Füchse Berlín, er í hópnum þrátt fyrir að hafa ekkert getað spilað á þessari leiktíð vegna meiðsla.

Hinn 24 ára gamli Prantner hefur auðvitað verið algjör lykilmaður í ítalska landsliðinu og varð markahæstur í liðinu á HM fyrir tæpu ári síðan. Það var fyrsta stórmót Ítalíu á þessari öld, eða frá því að liðið komst á HM 1997 og lék svo á heimavelli á EM árið 1998. EM í janúar verður því fjórða stórmót Ítala sem eiga erfitt verk fyrir höndum í riðli með Íslendingum, Ungverjum og Pólverjum.

Simon Sirot, sem er í ungmennaakademíu Füchse Berlín, er einnig í ítalska EM-hópnum sem og Domenico Ebner markvörður Leipzig og Simone Mengon úr Stuttgart. Þá eru fjórir leikmenn sem spila í þýsku B-deildinni, þar af þrír með Potsdam sem er venslalið Füchse.

Hanning, þjálfari Ítala, hefur um langt árabil verið við völd hjá Füchse Berlín, þar sem hann er framkvæmdastjóri, og tengist því ítölskum leikmönnum félagsins með tvennum hætti.

Ítalir koma líkt og strákarnir okkar saman til æfinga 2. janúar. Þeir leika vináttulandsleik við Rúmeníu 6. janúar og fylgja því svo eftir með tveimur vináttulandsleikjum við Færeyinga í Þórshöfn, áður en leikurinn við Ísland tekur við 16. Janúar á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×