Fótbolti

Féll úr skíða­lyftu og lést

Valur Páll Eiríksson skrifar
Hertner var frambærilegur fótboltamaður.
Hertner var frambærilegur fótboltamaður. Oliver Hardt/Getty Images

Fyrrum þýskur unglingalandsliðsmaður í knattspyrnu lést í slysi í stólalyftu í skíðabrekku í Svartfjallalandi skömmu fyrir jól. Kona hans sat föst í lyftunni klukkustundum saman.

Hinn 34 ára gamli Sebastian Hertner lést á skíðasvæðinu Savin Kuk nálægt fjallabænum Žabljak þann 20. desember eftir að tvöföld stólalyfta losnaði frá kapli og rakst á sætið fyrir aftan.

Atvikið átti sér stað á meðan Hertner var í fríi ásamt konu sinni í Durmitor-fjallgarðinum, sem er vinsæll vetrarferðamannastaður í norðurhluta Svartfjallalands, á laugardaginn var.

Hertner féll um 70 metra til jarðar úr lyftunni og lést á vettvangi. 30 ára gömul eiginkona hans, sem var með honum, brotnaði á fæti og sat föst í stólnum. Hún þurfti að bíða þess að viðbragðsaðilar björguðu henni úr lyftunni.

Að minnsta kosti þrír aðrir ferðamenn sátu einnig fastir í stólum sínum í nokkrar klukkustundir áður en björgunarsveitum tókst að ná þeim niður heilu og höldnu.

Skíðalyfta í Savin Kuk í Svartfjallalandi þar sem slysið varð.Mynd/Ski Center Savin Kuk

Hertner var fyrrverandi varnarmaður sem var atvinnumaður í Þýskalandi fyrir félög á borð við 1860 München, Erzgebirge Aue og Darmstadt í annarri deild.

Hann var síðar fyrirliði ETSV Hamburg í Oberliga, fimmtu deild Þjóðverja.

Á unglingsferli sínum var Hertner talinn framúrskarandi efnilegur og spilaði fyrir undir 18 og 19 ára landslið Þýskalands.

Hann spilaði með framtíðar landsliðsmönnum, þar á meðal heimsmeistaranum Christoph Kramer.

Yfirvöld í Svartfjallalandi fyrirskipuðu tafarlausa lokun stólalyftunnar eftir atvikið og lögregla hóf rannsókn.

Engin opinber orsök fyrir slysinu hefur verið staðfest og greint frá því að ítarleg tæknileg skoðun á lyftunni yrði framkvæmd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×