Innlent

Klæðning fauk af Stjórnsýslu­húsinu og skemmdi bíla

Atli Ísleifsson skrifar
Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði. Myndin er úr safni.
Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði. Myndin er úr safni. Vísir/Anton Brink

Foktjón varð á Ísafirði í óveðrinu sem gekk yfir landið í gær, aðfangadag. Lögreglumenn á Ísafirði urðu varir við að nokkrir lausir munir höfðu fokið og að í tveimur tilvikum að minnsta kosti hafi roðið skemmdir á mannlausum bílum sem stóðu á bílastæði við Hafnarstræti á Ísafirði.

Í færslu lögreglunnar á Vestfjörðum á Facebook segir að veggklæðning hafi losnað af Stjórnsýsluhúsinu og fokið á bílana.

Einnig segir að á nokkrum öðrum stöðum í Skutulsfirði hafi lausir hlutir fokið til og hafi verið reynt að tryggja að þeir yllu ekki frekara tjóni. Sömuleiðis urðu lögreglumenn varir við að landfestar báts við bryggju á Ísafirði væru að losna og var þá haft var samband við skipstjórann til að hægt væri að fyrirbyggja frekari skemmdir.

„Lögreglan vill hvetja til þess að húseigendur/umráðamenn og aðrir hugi vel að því hvort eitthvað í nærumhverfinu geti losnað og fokið með tilheyrandi hættu fyrir vegfarendur eða valdið skemmdum á eigum annarra.

Nýbyggingar eða mannvirki sem eru í viðgerð, s.s. þak eða veggklæðningar virðast vera í hættu hvað þetta varðar, að hlutir losni og fjúki.

Áfram er spáð hvössum vindi af og til næstu daga.

Þá eru vegfarendur sem leið eiga um vegi undir bröttum hlíðum hvattir til að aka með sérstakri varúð, enda hafa grjót fallið á vegi og erfitt er að sjá það í myrkrinu,“ segir í færslu lögreglunnar á Vestfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×