Arsenal rústaði Villa og náði fimm stiga for­skoti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gabriel fagnar eftir að hafa skorað fyrsta mark Arsenal gegn Aston Villa.
Gabriel fagnar eftir að hafa skorað fyrsta mark Arsenal gegn Aston Villa. getty/Justin Setterfield

Eftir ellefu sigra í röð í öllum keppnum var Aston Villa skellt hressilega niður á jörðina af Arsenal í kvöld. Skytturnar unnu 4-1 sigur og náðu fimm stiga forskoti á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Villa vann Arsenal, 2-1, fyrr í þessum mánuði en viðureign kvöldsins var ójöfn, allavega seinni hálfleikurinn þar sem öll mörk leiksins komu.

Gabriel kom Arsenal yfir með skalla eftir hornspyrnu Bukayos Saka á 48. mínútu. Fjórum mínútum síðar sendi Martin Ødegaard á Martín Zubimendi sem skoraði annað mark heimamanna.

Á 69. mínútu jók Leandro Trossard muninn í 3-0 með skoti fyrir utan vítateig og níu mínútum síðar skoraði varamaðurinn Gabriel Jesus fjórða mark Arsenal með laglegu skoti.

Ollie Watkins lagaði stöðuna í uppbótartíma með sínu þriðja marki í síðustu tveimur leikjum. Lokatölur 4-1, Arsenal í vil.

Þetta var fjórði deildarsigur Arsenal í röð en liðið er með 45 stig á toppnum, fimm stigum meira en Manchester City sem á leik til góða.

Villa er í 3. sætinu með 39 stig en þetta var fyrsta tap liðsins síðan 1. nóvember.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira