Skoðun

Leið­togi

Gunnar Salvarsson skrifar

Ég þekki Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra ekki persónulega. Hef aldrei hitt hana og þekki ekki til bakgrunns hennar né hæfileika umfram það sem blasir við mér sem almennum borgara. Hún kemur mér engu að síður fyrir sjónir sem trúverðugasti og sterkasti pólitíski leiðtogi sem komið hefur fram hér á landi um langt árabil. 

Þegar litið er yfir stjórnmálasviðið síðustu áratugi er ljóst að það er langt í frá sjálfgefið að stjórnmálaflokkar hafi sterka leiðtoga. Fremur mætti halda því fram að eitt helsta vandamál íslenskra stjórnmála hafi einmitt verið skortur á slíkri forystu. Stjórnmálaflokkar lifa og deyja. Flestir lifa þó af sveiflur í fylgi, endurskoða stefnur og setja fram ný slagorð, en mistekst samt að höfða til fjöldans. Samfylkingin var í þeirri stöðu. Þangað til skyndilega, nánast eins og hendi væri veifað, fram á sviðið kom ung kona sem virtist fullmótuð til þess að leiða jafnaðarmenn á Íslandi. 

Upp úr hvaða jarðvegi spretta leiðtogar eins og Kristrún? Það er áhugaverð spurning sem gott væri að hafa svar við. Ég geri mér grein fyrir að henni er vandsvarað, enda flókið samspil margra þátta: uppeldis, persónuleika, hæfileika, eðlisgreindar og aðstæðna. Án þess að geta greint þessa þætti blasir þó eitt við öllum: Kristrún skapar traust. Hún er yfirveguð og geislar af sjálfstrausti. Það sem vekur þó líklega mesta athygli er að hún kemur ekki upp úr ungliðahreyfingu flokksins. Hún er ekki alin upp í hefðbundnu flokksstarfi og ber ekki með sér bagga fortíðar frá þeim tíma þegar innri átök og sameining flokka skildu eftir sig djúp og erfið sár í árdögum Samfylkingarinnar. 

Þegar Kristrún tók við formennsku í flokknum var líkt og hún kæmi að verkefninu sem fullmótuð fagmanneskja, með reynslu úr heimi greiningar, fjármála og stofnana. Í opinberri framkomu eru yfirvegun og skýrleiki einkennandi sem er fremur sjaldgæft í íslenskri pólitík. Hún talar hægt, af festu, hófsemi og trúverðugleika. Hún talar eins og stjórnmálamaður sem skilur samfélagsgerðina og kerfin sem hún vill hafa áhrif á og breyta. Það er nánast nýtt í eyrum margra okkar. 

Í því ljósi held ég því fram að Kristrún Frostadóttir hafi á liðnu ári orðið tákn fyrir eitthvað sem hefur verið af skornum skammti í íslenskum stjórnmálum allt of lengi: tilfinningu fyrir stjórnmálaleiðtoga sem fólk er tilbúið að treysta, jafnvel án þess að þekkja hana persónulega og án þess að hafa kosið flokk hennar.

 Höfundur er fyrrverandi frétta- og dagskrárgerðarmaður.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×