Veður

Allt að tuttugu stiga frost en bjart víða

Agnar Már Másson skrifar
Áfram er gert ráð fyrir að verði frost um mestallt land.
Áfram er gert ráð fyrir að verði frost um mestallt land. Vísir/Vilhelm

Búist er við tveggja til tólf stiga frosttölum í helstu byggðakjörnum landsins í dag en það gæti hlýnað með ströndinni norðan- og vestanlands í kvöld og á morgun. Við Kárahnjúka á Austurlandi er aftur á móti spáð hátt í tuttugu stiga frosti.

Í dag er búist við vestan- og norðvestanvindátt 8-15 m/s og dálítilli él á austanverðu landinu og með norðurströndinni, en annars hægari norðlæg átt og léttskýjað að mestu, samkvæmt textaspá Veðurstofu Íslands. 

Þá er búist við 13-18 m/s austan Öræfa í kvöld og nótt, en hægari þar í fyrramálið. Þá er spáð stöku él á morgun, einkum um norðanvert landið, og þykknar upp.

Veðurfræðinur bendir á í hugleiðingum sínum að hæðasvæðið sem legið hefur yfir, og suður af, Grænlandi virðist áfram ætla að stjórna veðrinu að mestu næstu daga. 

Það séu því líkur á hægum vindum og björtu veðri víða um land fram á þriðjudag. Þó munu lægðir austur af landinu valda strekkingsvindi og dálitlum éljum um norðan- og einkum austanvert landið fram á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×