Innlent

Þessi bjóða sig fram fyrir Sam­fylkinguna í Reykja­vík

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Jafnaðarfólk í höfuðborginni hefur úr nógu að velja en sautján manns bjóða sig fram í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík.
Jafnaðarfólk í höfuðborginni hefur úr nógu að velja en sautján manns bjóða sig fram í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík. Vísir/Samsett

Í dag leið framboðsfrestur í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík. Þannig er orðið ljóst að einhverjir eftirfarandi einstaklinga verða á listum Samfylkingarinnar í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fara í vor.

Flokksvalið fer fram 24. janúar og eins og fjallað hefur verið um keppast Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og Pétur Hafliði Marteinsson fyrrverandi knattspyrnumaður um oddvitasætið en barist verður um hvert sæti frá fyrsta og upp í það sjötta. Alls eru sautján sem gefa kost á sér.

Þétt setið um efstu sætin

Um oddvitasætið berjast líkt og fyrr segir Heiða Björg Hilmisdóttir og Pétur Hafliði Marteinsson. Heiða Björg hefur verið borgarstjóri Reykjavíkur en líkt og í tilfelli forvera hennar í starfi, Einars Þorsteinssonar, virðist hún ekki njóta mikils stuðnings innan flokksins. Fréttir bárust undir áramótin af því að hann hafi farið á fund Kristrúnar Frostadóttir formanns og forsætisráðherra og þar hefur mögulegt framboð Péturs líklega borið á góma.

Um annað sætið etja þrír jafnaðarmenn kappi. Bjarnveig Birta Bjarnadóttir fór með sigur af hólmi úr ungliðaprófkjöri Hallveigar, félags ungs jafnaðarfólks í Reykjavík í byrjun desember. Skúli Helgason borgarfulltrúi sækist sömuleiðis eftir öðru sætinu auk Steinunnar Gyðu- og Guðjónsdóttur og Magneu Marinósdóttur.

Bjarnveig Birta ólst upp í Breiðholti en er í dag búsett í Rimahverfi Grafarvogs ásamt eiginmanni sínum, Pétri Frey Sigurjónssyni og þremur börnum sem eru tveggja, fimm og sex ára. Hún er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og M.Sc. gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.

Skúli Helgason hefur verið borgarfulltrúi Samfylkingarinnar frá árinu 2014. Áður sat hann á þingi frá 2009 til 2013 og var þar á undan framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar á árunum 2006 til 2009.

Samskiptasérfræðingurinn og spunaleikarinn Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir gefur einnig kost á sér í 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún er formaður kvennahreyfingar flokksins og langar að leysa leikskólamálin í „eitt skipti fyrir öll.“ Steinunn er með meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá Columbia University í New York og BA-gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands.

Fyrrverandi og núverandi borgarfulltrúar

Magnea Marinósdóttir stjórnmálafræðingur sækist eftir öðru til fjórða sæti. Magnea hefur starfað innan Alþingis, stjórnarráðsins, sveitarfélaga, félagasamtaka, háskólasamfélagsins og alþjóðastofnana. Húnr stofnfélagi í Samfylkingunni og hefur undanfarin ár haldið utan um málefnastarf hennar á sviði stjórnarfars og mannréttinda. Jafnframt situr hún í stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík, Verkalýðsráðsins og Kvennahreyfingarinnar og er varamaður í framkvæmdastjórn flokksins.

Guðmundur Ingi Þórodsson, formaður Afstöðu - réttindafélags, hefur boðið sig fram í þriðja sætið. Hann hefur verið félagi í Samfylkingunni frá árinu 2015. Guðmundur Ingi er uppalinn í Árbæ og Breiðholti. Hann fer ekki einungis með formennsku í Afstöðu heldur situr hann einnig í trúnaðarráði Eflingar og í fulltrúaráði Gildis. Áður starfaði hann á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra. Hann er með BA-gráðu í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands og stundar nú meistaranám bæði í opinberri stjórnsýslu við HÍ og í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst. Guðmundur Ingi hefur verið félagi í Samfylkingunni frá árinu 2015 og er formaður Rósarinnar, landsfélags jafnaðarmanna.

Sara Björg Sigurðardóttir, fyrsti varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, sækist einnig eftir þriðja sætinu. Hún er fædd í Reykjavík árið 1977 og var í sjöunda sæti á lista Samfylkingarinnar í sveitarstjórnarkosningunum árið 2022.

Í þriðja til fjórða sæti bjóða sig fram þau Birkir Ingibjartsson og Dóra Björt Guðjónsdóttir. Sú síðarnefnda gekk til liðs við Samfylkinguna fyrr í vetur eftir að hafa verið borgarfulltrúi Pírata. Í þriðja til fimmta sæti býður sig fram Ellen J. Calmon.

Samkvæmt tilkynningu frá kjörstjórn lítur listinn fyrir flokksvalið svona út:

1. sæti - Heiða Björg Hilmisdóttir

1. sæti - Pétur Hafliði Marteinsson

2. sæti - Bjarnveig Birta Bjarnadóttir

2. sæti - Skúli Helgason

2. sæti - Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir

2. - 4. sæti - Magnea Marinósdóttir

3. sæti - Guðmundur Ingi Þóroddsson

3. sæti - Sara Björg Sigurðardóttir

3. - 4. sæti - Birkir Ingibjartsson

3. - 4. sæti - Dóra Björt Guðjónsdóttir

3. - 5. sæti - Ellen J. Calmon

4. sæti - Stein Olav Romslo

4. - 6. sæti - Valný Óttarsdóttir

4. - 6. sæti - Rúnar Logi Ingólfsson

5. sæti - Ólöf Helga Jakobsdóttir

5. - 6. sæti - Bjarni Þór Sigurðsson

6. sæti - Sigfús Ómar Höskuldsson




Fleiri fréttir

Sjá meira


×