Innlent

Segir of mikla fyrir­höfn að stöðva áfengis­sendingar

Smári Jökull Jónsson skrifar
Hildur Sunna Pálmadóttur er sviðsstjóri ákærusviðs Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Hildur Sunna Pálmadóttur er sviðsstjóri ákærusviðs Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Einar

Sviðsstjóri ákærusviðs hjá lögreglunni segir lög ekki óskýr hvað smásölu áfengis varðar. Augljóst sé að slík sala á helgidögum sé brot á áfengislögum en koma verði í ljós hver niðurstaða dómstóla verði.

Lögregla hefur á síðustu vikum í tvígang lokað sölustöðum netverslana sem selja áfengi. Annars vegar um helgina en hins vegar á öðrum degi jóla en í reglugerð um smásölu áfengis er sala bönnuð á ákveðnum dögum, meðal annars helgidögum Þjóðkirkjunnar.

Hildur Sunna Pálmadóttir, sviðsstjóri ákærusviðs hjá lögreglu, segir ástæðu aðgerðanna vera að lögreglan telji starfsemina ólöglega. Fyrir liggi kæra gagnvart Smáríkinu fyrir ólöglega smásölu en millifyrirtaka í því máli fer fram síðar í málinum.

„Þar til niðurstaða dómstólanna liggur fyrir um hvort svo sé þá að sjálfsögðu heimilum við ekki að slíkir staðir stundi hina meintu ólögmætu smásölu á helgidögum, sem er augljóst brot á áfengislögum. Þegar Vínbúðirnar, sem hafa slíka heimild, gera það ekki,“ sagði Hildur Sunna í viðtali í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Við teljum að áfengið þurfi að vera erlendis“

Hildur Sunna vísar þá í reglugerð um smásölu áfengis þar sem fram kemur að afgreiðslutími útsölustaða áfengis skal ekki vera lengur en frá átt að morgni til ellefu að kvöldi. Einnig að útsölustaðir skuli vera lokaðir á helgidögum þjóðkirkjunnar, sumardaginn fyrsta, 1. maí, 17. júní og á frídegi verslunarmanna. 

Þá segir í áfengislögum að ÁTVR hafi einkaleyfi til smásölu áfengis.

Hildur Sunna segir að lögin varðandi smásölu áfengis séu ekki óskýr.

„Hins vegar hafa fyrirtæki hér á landi hafið rekstur og telja sig hafa einhvers konar heimild til að selja áfengi og afhenda í gegnum erlend félög. Það er það sem þetta mál snýst um. Þau telja að af því félagið er erlent þá upfylli þessi framkvæmd reglur EES-samningsins en við teljum að áfengið þurfi að vera erlendis þegar þú pantar það og sent til einstaklinga erlendis frá,“ segir Hildur Sunna ennfremur.

Það sé lögreglu að ákæra og hennar túlkun sé að um sé að ræða smásölu.

„Þá hlýtur það að vera eðlilegt að við grípum til ráðstafana og gerum fyrirtækjunum að stöðva sölu áfengis á helgidögum þjóðkirkjunnar, eins og áfengislög kveða skýrt á um að sé óheimilt.“

Stöðvuðu afhendingu en ekki heimsendingu

Í viðtali við eiganda Nýju vínbúðarinnar á Rúv segir hann lokanir lögreglu undanfarið byggja á misskilningi. Nýja vínbúðin sé einungis afhendingarstaður en ekki smásala. Í aðgerðum lögreglu á öðrum degi jóla, þegar sölustöðum Smáríkisins og Nýju vínbúðarinnar var lokað þá gátu viðskiptavinir áfram fengið áfengi sent heim en lokað var fyrir afhendingu í verslun.

„Það er auðvitað framkvæmd að stöðva afhendinguna sem að í rauninni var ekki farið í og það er bara ekki vegna þess að við teljum það lögmætt, heldur bara vegna fyrirhafnar að fara að stöðva sendla sem eru auðvitað gríðarlega margir og starfsemin umfangsmikil,“ segir Hildur Sunna og bætir við að áfengislögin geri ekki ráð fyrir starfsemi fyrirtækja sem þessa.

„Því hefði auðvitað verið ákjósanlegt að löggjafinn hefði haft frumkvæði að því að breyta þeim í samræmi við það sem að þau telja réttast. En löggjafinn telur augljóslega, miðað við það var ekki gert, að lögin séu bara skýr. Að ÁTVR hafi einkaleyfi til einkasölu, þannig eru lögin og því ákærum við fyrir þessa háttsemi því við teljum hana ekki uppfylla skilyrði laga.“

„Svo er spurning hvað löggjafinn gerir eftir að dómur fellur í málinu, hvernig sem hann fer.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×