Veður

Á­fram kalt og lægðir sækja að landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Ísilögð Þjórsá við Þjórsárósa um helgina.
Ísilögð Þjórsá við Þjórsárósa um helgina. Vísir/Vilhelm

Hæðarhryggur, sem hefur legið yfir landinu undanfarið, heldur enn velli þó lægðir sæki að. Gera má ráð fyrir fremur hægri norðan- og norðaustanátt og dálitlum éljum fram eftir morgni, en léttskýjuðu á Suður- og Vesturlandi.

Á vef Veðurstofunnar segir að það gangi í norðvestanstrekkingsvind við austurströndina uppúr hádegi, en annars mun hægari austlæg eða breytileg átt.

Víða bjartviðri síðdegis, en dálítil él norðaustantil. Allmikið lægðardrag nálgast landið úr suðvestri undir kvöld og hvessir því nokkuð vestantil. Áfram talsvert frost um land allt, tveggja til tólf stiga frost og kaldast inn til landsins.

„Á morgun, miðvikudag er útlit fyrir ákveðna austlæga átt með éljum á austanverðu landinu og með suðurströndinni, en annars bjartviðri. Hlýnar nokkuð með suður- og austurströndinni. Hvessir heldur suðaustanlands á fimmtudag og snjóar þar um tíma, en hlýnar heldur í veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Austan 8-15 m/s, hvassast við suðurströndina. Léttskýjað um vestanvert landið, annars stöku él, en hvessir fer að snjóa suðaustanlands um kvöldið. Frost yfirleitt 0 til 12 stig, minnst syðst.

Á fimmtudag: Austan og norðaustan 5-13 m/s, en 13-20 syðst fram eftir degi. Skýjað að mestu og dálítil él austantil og með suðurströndinni, en annars bjart með köflum. Frost 0 til 8 stig, minnst syðst.

Á föstudag: Hæg norðlæg eða breytileg átt og snjókoma með köflum, en úrkomulasut að kalla sunnan heiða. Kalt í veðri.

Á laugardag: Líklega vaxandi norðaustanátt með snjókomu austantil um kvöldið, en annars dálítil él og áfram kalt í veðri.

Á sunnudag: Útlit fyrir stífa norðanátt með slyddu eða snjókomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×