Upp­gjörið: ÍR - Njarð­vík 84-59 | ÍR-ingar byrja árið vel

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Hákon Örn var frábær fyrir ÍR-inga í kvöld.
Hákon Örn var frábær fyrir ÍR-inga í kvöld. Anton Brink

ÍR tók á móti Njarðvík í 13. umferð Bónus deild karla í kvöld og vann öruggan sigur 84-59. Þetta var annar sigur ÍR-inga í röð og líklegast besta frammistaða þeirra á tímabilinu til þessa.

Leikurinn var afar jafn framan af þar sem bæði lið gerðu vel og tókst hvorugu liði að slíta sig frá hinu. 20-18 var staðan eftir fyrsta leikhluta og var nýr leikmaður Njarðvíkur markahæstur með sex stig.

ÍR-ingar byrjuðu annan leikhluta afar vel og setti Hákon Örn Hjálmarsson niður mikilvægan þrist og svo strax í kjölfarið setti hann niður tveggja stiga körfu. Heimamönnum tókst þá að slíta sér aðeins frá gestunum og lauk öðrum leikhluta með 13 stigum, 48-35. Þrír leikmenn ÍR fóru inn í hálfleik með 12 stig hver, Tómas Orri, Hákon Örn og Tsotne Tsartsidze.

Síðari hálfleikur fór hægt af stað en ÍR-ingum tókst þó að auka forskot sitt enn frekar. Gestirnir frá Njarðvík áttu erfitt varnar og sóknarlega en leikhlutanum lauk með 18 stiga forskoti ÍR-inga, 67-49.

Heimamenn sigldu sigrinum svo örugglega heim í síðasta leikhluta og 25 stiga sigur ÍR-inga niðurstaðan, 84-59.

Atvik leiksins

Ekkert sérstakt atvik að mínu mati en innkoma Hákons Arnar í öðrum leikhluta var frábær og hjálpaði ÍR-ingum að slíta sig frá gestunum.

Stjörnur og skúrkar

Tómas Orri Hjálmarsson með 17 stig, 3 stoðsendingar og 5 fráköst. Tsotne með 17 stig, 11 fráköst og 2 stoðsendingar. Hákon Örn Hjálmarsson var með 12 stig og 7 stoðsendingar.

Dominykas Milka var með 16 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar fyrir Njarðvíkinga.

Stemning og umgjörð

Góð stemning í Skógarselinu í Breiðholti og töluverð læti í stuðningsmönnum heimamanna sem létu Njarðvíkur leikmennina gjörsamlega heyra það.

Sveinbjörn Claessen ÍR legend eða herra ÍR eins og hann er nær alltaf kallaður, var að sjálfsögðu á sínum stað og stýrði tónlistinni afar vel á meðan leik stóð. Hann stóð sig reyndar enn betur á moppunni fyrir leik, í hálfleik og eftir leik.

Dómarar

Kristinn Óskarsson, Gunnlaugur Briem og Guðmundur Ragnar Björnsson stóðu vaktina á parketinu í kvöld og gerðu það með prýði.

Ekkert vesen á þessum í kvöld.Anton Brink

Viðtöl

Borce Ilievski: Býst við að landsliðsþjálfarinn fylgist með strákunum

Borce var afar ánægður með lið sitt í kvöld.Anton Brink

„Ég er virkilega stoltur af leikmönnunum og hvernig við nálguðumst leikinn frá upphafi til enda. Þetta var líklega okkar besti leikur á þessu tímabili.“

„Vonandi náum við að halda út tímabilið með sama takti. Markmiðið er alltaf titillinn en fyrst þurfum við að komast í úrslitakeppnina til þess að berjast um hann. Ef við höldum áfram að spila svona þá er ég viss um að við verðum þar.“

„Við vissum hvaðan hættan myndi koma hjá Njarðvíkingum og hvernig við ættum að bregðast við henni. Vörnin okkar var frábær í kvöld og við héldum Njarðvíkingum í 59 stigum. Þeir eru með frábæra leikmenn en við einfaldlega stóðum okkur mjög vel í okkar hlutverkum í kvöld.“

„Hákon, sem er fyrirliðinn okkar á þessu tímabili er sannkallaður leiðtogi. Hann leiðir liðið með jákvæðni, hvetur alla áfram og sér um allt sem þarf. Tommi er einn sá leikmaður sem hefur bætt sig hvað mest í deildinni. Sem þjálfari get ég verið afar ánægður og ég býst við að landsliðsþjálfarinn fylgist með þessum strákum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira