Körfubolti

Hilmar Smári kvaddur í Litáen

Sindri Sverrisson skrifar
Hilmar Smári Henningsson átti sinn þátt í því að Stjarnan landaði þeim stóra í fyrsta sinn í vor.
Hilmar Smári Henningsson átti sinn þátt í því að Stjarnan landaði þeim stóra í fyrsta sinn í vor. vísir/Hulda Margrét

Landsliðsmaðurinn Hilmar Smári Henningsson er á leið í nýtt félag eftir að hafa spilað með Jonava í Litáen fyrri hluta þessarar körfuboltaleiktíðar.

Félagið þakkar Hilmari á Instagram-síðu sinni og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni. Ekki liggur fyrir hvert næsta skref Hilmars verður og hvort hann sé mögulega á heimleið.

Hilmar hélt út í atvinnumennsku eftir Evrópumótið í Póllandi í ágúst, eftir að hafa átt ríkan þátt í fyrsta Íslandsmeistaratitli Stjörnunnar á síðustu leiktíð.

Hilmar, sem varð 25 ára í september, hefur áður reynslu af því að spila erlendis en hann var leikmaður Valencia á Spáni 2019-21 og Eisbären Bremerhaven í Þýskalandi 2023-24. Hann er uppalinn hjá Haukum en hefur einnig leikið með Þór á Akureyri og svo Stjörnunni eins og áður sagði.

Á síðasta tímabili var Hilmar með 21,6 stig, 4,1 frákast og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í deildarkeppninni. Í úrslitakeppninni var hann með 19,8 stig, 4,1 frákast og 3,4 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×