Skoðun

Erum við í djúpum skít?

Jón Pétur Wilke Gunnarsson skrifar

Við Íslendingar höfum löngum verið stolt af hreinu vatni og ósnortinni náttúru. Við segjum ferðamönnum að hér megi drekka vatn beint úr krananum og baða sig í sjónum án áhyggja. Sú ímynd er ekki ósönn — en hún er ófullkomin.

Þegar kemur að fráveitum og skólpmálum er staðan miklu verri en almennt er viðurkennt.

Í stöðuskýrslum Umhverfisstofnunar frá 2017, 2018, 2020 og 2022 kemur sama niðurstaðan fram aftur og aftur: stór hluti landsins uppfyllir ekki gildandi kröfur um skólphreinsun. Þróunin er hæg og víða hefur lítið breyst í meira en áratug.

Árið 2020 náðu gagnaskil til 28 þéttbýla þar sem losun er yfir 2.000 persónueiningar, sem samsvarar um 88% landsmanna. Af þeim uppfyllti aðeins eitt þéttbýli hreinsikröfur reglugerðarinnar. Tveimur árum síðar voru þau orðin tvö.

Þetta eru ekki smávægileg frávik. Þetta er kerfislægur vandi.

Reglugerð um fráveitur og skólp (798/1999) hefur lengi kveðið á um að skólp skuli hreinsað áður en því er veitt út í náttúruna. Samt er staðreyndin sú að víða á landinu fer skólp annaðhvort óhreinsað eða aðeins í gegnum grófhreinsun, þar sem rusl, sandur og fita eru fjarlægð en lífræn mengun fer nánast óhindruð út í viðtakann.

Á höfuðborgarsvæðinu fer nánast allt skólp í gegnum hreinsistöðvar við Ánanaust og Klettagarða. Þar er þó aðeins um grófhreinsun að ræða og mælingar sýna að kröfur um lágmarks lækkun lífræns efnis og svifagna eru ekki uppfylltar. Þetta er stærsta einstaka losunarsvæði landsins.

Víða annars staðar er staðan verri. Í mörgum þéttbýlum er engin hreinsun yfirhöfuð og skólp losað um margar útrásir, sumar beint í fjörur eða hafnir. Umhverfisstofnun hefur ítrekað bent á að fjöldi útrása uppfylli ekki kröfur um lengd og staðsetningu, en heildstæð greining liggur enn ekki fyrir.

Ein ástæða þess að þessi staða hefur viðgengist er hugtakið „síður viðkvæmur viðtaki“. Reglugerðin heimilaði vægari hreinsun ef sýnt væri fram á að viðtakinn þyldi losunina. Í framkvæmd varð þetta að hægfara ferli þar sem mörg sveitarfélög voru/eru árum saman í „gagnaöflun“ án þess að endanleg niðurstaða lægi fyrir. Á meðan heldur losunin áfram.

Annað sem sjaldan er rætt er seyra. Þar sem hreinsun fer fram verður til seyra sem inniheldur verðmæt næringarefni, svo sem fosfór og köfnunarefni. Á Íslandi er slík seyra að mestu leyti ekki nýtt heldur fer út með skólpinu. Þetta er sóun á auðlindum á sama tíma og heimsbyggðin glímir við skort á slíkum efnum.

Ný reglugerð (nr. 1450/2025) um fráveitur og skólphreinsun tók gildi nýverið. Hún er skýrari, strangari og krefst betri gagna, vöktunar og ábyrgðar. Hún er í raun viðurkenning á því sem stöðuskýrslurnar hafa sagt í mörg ár: gamla kerfið virkaði ekki!

Spurningin er því ekki lengur hvort við eigum að laga fráveiturnar. Hún er hvenær ætlum við loksins að gera það — eða halda áfram að horfa undan á meðan skólpið rennur út í náttúruna sem við segjumst vilja vernda.

Höfundur er lífefnafræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×