Innlent

Funda um Evrópumálin „fjarri kast­ljósi fjöl­miðla“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra verður gestur á fundinum sem er ætlað að vera lágstemmdur.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra verður gestur á fundinum sem er ætlað að vera lágstemmdur. Vísir/Vilhelm

Samfylkingarfélagið í Reykjavík boðar til fundar með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra um Evrópumálin í vikunni. Tekið er fram í tilkynningu félagsins að spjallið á fundinum sé „haft á lágu nótunum, fjarri kastljósi fjölmiðla.“ Formaður félagsins segir um óformlegan fund að ræða og tilviljun að fundinn beri upp á sama tíma og aukinn kraftur hafi færst í umræðu um Evrópumál.

Tilkynninguna um fundinn má sjá á vef flokksins. Þar segir að Samfylkingarfélagið í Reykjavík gangist í vetur fyrir spjallfundum um Ísland og Evrópusambandið og að haldnir séu stuttir fundir mánaðarlega með einum gesti eða tveimur. Næsti fundur verði nú á miðvikudag í höfuðstöðvum flokksins á Hallveigarstíg og gestur sjálf Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra. Spjallað verði um fyrirheit ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum, væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu og stöðu Evrópusambandsins hér og á alþjóðavettvangi.

„Þetta spjall um Evrópu er haft á lágu nótunum, fjarri kastljósi fjölmiðla, og er tilgangurinn bæði að fræðast og undirbúa sig fyrir atkvæðagreiðsluna um aðildarviðræður seinna á kjörtímabilinu. Allir félagar velkomnir ‒ og takið með ykkur gesti!“

Aukinn kraftur hefur færst í umræðuna um Evrópumál undanfarna daga vegna ólgunnar í heimsmálum og yfirlýsingar Bandaríkjastjórnar um Grænland. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra hefur sagt áherslu verða lagða á að klára varnarsamning við ESB og boðað að þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður verði lögð fyrir Alþingi í vor.

Óformlegur fundur

„Við erum kannski ekkert að prjóna þetta mál í hæstu hæðir, við gætum alveg eins verið í matreiðsluklúbbi, jafnaðarmenn og áhugamenn um ítalska matseld,“ segir Sigfús Ómar Höskuldsson formaður Samfylkingarfélagsins í Reykjavík í samtali við Vísi.

„Það eru ekki allir jafn áhugasamir um þetta mál, en það getur verið mikilvægt fyrir íslenska þjóð að taka þessa umræðu. Við erum ekki að halda formlegan fund til að álykta um neitt, þetta er umræða, líkt og að sitja við eldhúsborðið og spjalla. Þetta er ekki gert til þess að blaðamenn geti vitnað til þeirra samræðna sem þarna eiga sér stað, en það er heldur ekkert að fela þarna.“

„Það er algjör tilviljun að það sem búið er að vera að gerast í heiminum rími við efni þessa fundar og að Kristrún sé að sækja hann,“ segir Sigfús. „Þetta var löngu bókað og löngu ákveðið, það er bara tilviljun. Auðvitað gefur það fundinum aukið vægi að slíkur gestur sæki hann, sérstaklega í ljósi umræðunnar, en það er bara tilviljun.“

Leiðtogar flokkanna ræddu Evrópumálin meðal annars í Kryddsíldinni á Gamlársdag.


Tengdar fréttir

Eigi að setja allan kraft í að hræða íslensku þjóðina í Evrópusambandið

Stjórnarandstaðan mætir tilbúin til leiks þegar þing kemur saman á miðvikudag. Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir áhyggjuefni hversu mikil áhersla er á utanríkis- og Evrópumál og Snorri Másson, varaformaður og þingmaður Miðflokksins, segir engan trúverðugleika innan ríkisstjórnar um menntamál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×