Fótbolti

Blysin slógu Bæjara ekki út af laginu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Þykk móða myndaðist eftir að stuðningsmenn Köln kveiktu í blysum þegar leikurinn var nýhafinn. 
Þykk móða myndaðist eftir að stuðningsmenn Köln kveiktu í blysum þegar leikurinn var nýhafinn.  Federico Gambarini/picture alliance via Getty Images

Bayern Munchen hélt sigurgöngu sinni áfram gegn 1. FC Köln í þýsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Leikurinn tafðist um drykklanga stund eftir að stuðningsmenn Köln kveiktu í blysum og lognið í borginni lét reykinn sitja stilltan.

Mögulega hafði það einhver jákvæð áhrif á heimamenn því þeir spiluðu ljómandi vel og komust yfir í fyrri hálfleik, með marki Linton Maina, en Bæjarar sýndu síðan styrk sinn og unnu að lokum 1-3.

Serge Gnabry skoraði fyrra mark Bayern og Kim Min-Jae bætti öðru marki við.

Ísak Bergmann Jóhannesson.Getty/Oliver Kaelke

Ísak Bergmann Jóhannesson kom inn af varamannabekknum á 78. mínútu, skömmu eftir seinna mark Bayern, en tókst ekki að snúa stöðunni við.

Þvert á móti þá skoraði ungstirnið Lennart Karl þriðja markið fyrir Bayern, þrátt fyrir að hafa mætt seint í rútuna sem keyrði liðið til Köln. Hann var afsakaður því þjálfarinn Vincent Kompany mætti líka seint, samkvæmt þýskum fjölmiðlum.

Kompany mætti seint í rútuna. 

Ísak Bergmann var byrjunarliðsmaður í öllum leikjum nema einum fyrir áramót en hefur nú verið á bekknum í fyrstu tveimur leikjunum eftir áramót.

Köln hefur ekki fagnað sigri í síðustu átta leikjum og situr fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×