Körfubolti

Sektaðir um hálfa milljón: Kane og þjálfarar þriggja liða borga mest

Sindri Sverrisson skrifar
Jamil Abiad, þjálfari Vals, var sektaður um samtals 60.000 krónur.
Jamil Abiad, þjálfari Vals, var sektaður um samtals 60.000 krónur. Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Körfuknattleikssamband Íslands fær meira en hálfa milljón króna vegna sekta sem aga- og úrskurðarnefnd sambandsins hefur nú tilkynnt um að hafi verið útdeilt. Hæstu sektina fá Grindvíkingar og þjálfari Sindra á Hornafirði hefur verið sektaður um samtals 90.000 krónur.

Sektirnar sem um ræðir nema samtals 505.000 krónum og eru að miklu leyti tilkomnar vegna þess að leikmenn og þjálfarar hafa fengið fjórar eða fleiri tæknivillur á leiktíðinni.

Í agareglum KKÍ segir að 20.000 króna sekt fáist fyrir að safna fjórum tæknivillum, 30.000 fyrir sex tæknivillur, 50.000 fyrir átta tæknivillur og 70.000 fyrir tíu tæknivillur, sem og fyrir hverja tæknivillu eftir það.

Þeir Jamil Abiad, þjálfari kvennaliðs Vals, og Nebojsa Knezevic þjálfari karlaliðs Sindra, fengu báðir 40.000 króna sekt vegna brottrekstrar, auk sekta fyrir fjölda uppsafnaðra tæknivilla. Knezevic fékk alls þrjár sektir upp á samtals 90.000 krónur.

Grindvíkingar fengu svo 60.000 króna sekt vegna sjö refsistiga sem þeir hlutu í leik gegn Stjörnunni, og DeAndre Kane fékk tvær sektir fyrir tæknivillur upp á samtals 50.000, svo samanlagðar sektir Grindvíkinga voru upp á 110.000 krónur.

Sektir aga- og úrskurðarnefndar KKÍ 14. janúar:

  • 110.000 krónur, Grindavík vegna DeAndre Kane og refsistiga gegn Stjörnunni
  • 90.000 krónur, Sindri vegna Nebojsa Knezevic
  • 60.000 krónur, Valur vegna Jamil Abiad
  • 50.000 krónur, Ármann vegna Steinars Kaldal
  • 20.000 krónur, Hamar vegna Daða Bergs Grétarssonar
  • 20.000 krónur, Skallagrímur vegna Péturs Más Sigurðssonar
  • 20.000 krónur, KR vegna Daníels Andra Halldórssonar
  • 20.000 krónur, Þór Ak. Vegna Ricardo Gonzalez
  • 20.000 krónur, Njarðvík vegna Einars Árna Jóhannssonar
  • 20.000 krónur, Fjölnir vegna Baldurs Más Stefánssonar
  • 20.000 krónur, Snæfell vegna Gunnlaugs Smárasonar
  • 20.000 krónur, Keflavík vegna Daníels Guðna Guðmundssonar
  • 20.000 krónur, Tindastóll vegna Israel Martin
  • 15.000 krónur, ÍA vegna Ilija Dokovic



Fleiri fréttir

Sjá meira


×