Skoðun

Orðin innan­tóm um árs­reikning Hvera­gerðis­bæjar

Friðrik Sigurbjörnsson og Alda Pálsdóttir skrifa

Um miðjan desember var fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2026 samþykkt. Í kjölfarið fór meirihluti Framsóknar og Okkar Hveragerðis mikinn og talaði um einstaka fjárhagsáætlun sem sýndi ábyrgan rekstur og lækkun skulda. Í bókun meirihlutans frá bæjarstjórnarfundi í nóvember var síðan talað um „stórsókn“ í hinum ýmsu málaflokkum, í fjölskyldumálum, félagslegu húsnæði og uppbyggingu leikskóla, en þegar áætlunin er skoðuð er þessi orðræða lítt í takt við efnið. Dæmi hver fyrir sig hvort hugtakið “stórsókn” eigi við um kaup á einni félagslegri íbúð.

Þá er lítið um raunverulegt aðhald í rekstri og því er í heild ekki hægt að tala um ábyrgan rekstur líkt og meirihlutinn hefur haldið fram. Ekki er brugðist við hækkun aðfanga og launa og jafnvel er gert ráð fyrir fjölgun starfsmanna og nefndarfunda sem eykur kostnað í stað þess að fara ábyrga leið og draga úr honum.

Áframhaldandi skuldsetning

Skuldsetning Hveragerðisbæjar á yfirstandi kjörtímabili ætti að vera íbúum mikið áhyggjuefni. Þannig hafa skuldir og skuldbindingar Hveragerðisbæjar á kjörtímabilinu hækkað úr 5.8 milljörðum kr. í lok árs 2022 og stefnir í að vera um 10 milljarða kr. í lok árs 2026. Samkvæmt fjárhagsáætlun verður skuldaviðmið samstæðu í 117,2%. Meirihlutinn hefur haft uppi fullyrðingar um að skuldir séu á niðurleið, en þær fullyrðingar standast því ekki þegar hækkun á skuldum og skuldbindingum sveitarfélagsins er skoðuð á þessu kjörtímabili.

Lítil sem engin uppbygging innviða

Þrátt fyrir aukna skuldasöfnun á kjörtímabilinu hefur lítið gerst í uppbyggingu innviða í Hveragerði. Uppbygging grunnskólans hélt áfram á þessu kjörtímabili líkt og meirihluti D-listans hafði undirbúið á síðasta kjörtímabili.

Leikskólinn Óskaland var stækkaður, en um leið gerður gríðarlega óhagstæður leigusamningur við Fasteignafélagið Eik til 50 ára eða ársins 2074. Leigan samkvæmt nýjum viðauka er 4.523.594 krónur á mánuði og miðað við stærð viðbyggingarinnar jafngildir það um 7.540 krónur á fermetra, tæplega þrefalt markaðsverð fyrir leigu atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu. Með stækkuninni bættust við einungis þrjár deildir, en kostnaður við byggingu viðbyggingarinnar var sá sami og nýr fullbyggður 6 deilda leikskóli hefði verið.

Enn bólar ekkert á nýju fráveitumannvirki, samt tala fulltrúar meirihlutans líkt og það mannvirki sé risið. Þá hefur uppbygging fyrir íþróttaiðkun gengið heldur brösuglega, en það var eitt helsta kosningaloforð beggja flokka í meirihluta, að hér í bæ yrði risið nýtt íþróttahús fyrir lok kjörtímabilsins. Tillaga D-listans um 700 fermetra æfingarsal við núverandi íþróttahús var breytt í sameiginlega tillögu bæjarstjórnar. Sú tillaga hefur bólgnað út á síðustu mánuðum og kostnaður við bygginguna aukist enn frekar. Ljóst er að sú upphæð sem er sett í áætlun fyrir þá framkvæmd næstu þrjú árin virðist ekki duga fyrir núverandi kostnaðaráætlun.

Til viðbótar við þetta var ákveðið að fara í uppbyggingu á gervigrasvelli upp í dal. Sú framkvæmd hefur ekki heldur staðist tímaáætlun og ekki víst að völlurinn verði tilbúinn til notkunar fyrr en seint í vor eða byrjun sumars. Nú er byrjað að byggja ný íbúðarhús í Kambalandi, en þar er gatnagerðin ekki enn búin og því enn ein framkvæmdin þar sem tímaáætlanir hafa ekki gengið eftir.

Álögurnar og fasteignagjöldin hækka

Miðað við fjárhagsáætlun virðist að litlu leyti eiga að standa við samþykkt bæjarráðs frá því síðasta sumar. Þar var tillaga fulltrúa D-listans um að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda á íbúða- og atvinnuhúsnæði og að fækka gjalddögum að nýju úr 11 í 10 samþykkt. Meirihlutinn gaf út villandi skilaboð til bæjarbúa eftir bæjarstjórnarfund í desember þar sem því var haldið fram að álagningarhlutfall fasteignagjalda væri að lækka, sem þau gera að litlu leyti, og þar með væru fasteignagjöldin líka að lækka. Hið rétta er samt að fasteignagjöldin á íbúa Hveragerðis munu hækka um 6-8% sé miðað við að fasteignamat íbúða hækki í takt við meðal hækkun fasteignamats í Hveragerði fyrir árið 2026. Þá hækka öll önnur gjöld sem eru inni í fasteignagjöldunum eins og vatnsgjald, fráveitugjald og sorphirðugjöld.

Það var svigrúm til að lækka fasteignagjöldin eins og sést í framlagðri fjárhagsáætlun þar sem gert er ráð fyrir að skila afgangi upp á yfir 500 milljónir króna, en meirihlutinn ákvað að nýta sér það ekki. Hvorki til að minnka lántökur, lækka skuldir eða lækka álögur á íbúa Hveragerðisbæjar.

Friðrik Sigurbjörnsson og Alda Pálsdóttir, bæjarfulltrúar D-listans í Hveragerði.




Skoðun

Sjá meira


×