Skoðun

Með einka­rétt á inter­netinu?

Ólafur Stephensen skrifar

Í tveimur öðrum greinum hér á Vísi hefur greinarhöfundur fjallað um það hvernig stjórnmálamenn ýta frá sér því brýna verkefni að endurskoða áfengislöggjöfina, m.a. með tilliti til þess að hún kveði skýrt á um að vefverzlun með áfengi sé heimil, en kjósa þess í stað að einstaklingar séu settir á sakamannabekk og þess krafizt að þeir verði dæmdir til refsingar fyrir að bjóða íslenzkum neytendum að kaupa áfengi á netinu. Það er þó starfsemi, sem fyrirtæki annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu hafa stundað með löglegum hætti í þrjá áratugi.

Ákæra lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á hendur forsvarsmanni Kjútís, félagsmanns í Félagi atvinnurekenda, og krafa um að hann verði dæmdur til refsingar, byggist á því að með rekstri netverzlunar hafi fyrirtækið brotið gegn ákvæðum áfengislaga um einkarétt íslenzka ríkisins á smásölu áfengis. Skoðum það aðeins nánar.

Einkarétturinn er ekki einkaréttur

Raunveruleikinn er sá að ríkið hefur ekki lengur neinn raunverulegan einkarétt á smásölu áfengis. Netverzlanir eru staðreynd og hafa stjórnvöld ekki haft nein teljandi afskipti af starfsemi þeirra flestra, með þeirri undantekningu að þessi eina ákæra hefur verið gefin út, að því er virðist aðallega til þess að ríkisvaldið geti sjálft áttað sig á því hvaða lög séu í gildi.

Smáframleiðendum hefur verið veitt lagaheimild til að selja áfengi á framleiðslustað – og sú sala hafði raunar farið fram um árabil án lagaheimildar, en jafnframt án athugasemda eða inngripa löggæzlunnar. Fjöldi vínáhugamanna fær í gegnum vínklúbba allt sitt léttvín og meira til, en það áfengi fer ekki um áfengisútsölur ríkisins og ekkert hefur heyrzt af afskiptum lögreglunnar. Vegasjoppur og matvöruverzlunin í Leifsstöð selja fólki óopnað áfengi til að hafa með sér án athugasemda stjórnvalda – og er þó þéttni starfsmanna löggæzlunnar óvíða meiri en á alþjóðaflugvellinum.

Ríkið einkavæðir einokun

Í erindi til Daða Más Kristóferssonar fjármála- og efnahagsráðherra fyrr í vikunni benti FA á að fjármálaráðuneytið var sjálft með í ráðum er þýzka einkafyrirtækinu Heinemann var með útboði falið að reka stærstu vínbúð landsins, fríhöfnina á Keflavíkurflugvelli. Skemmst er að minnast bréfaskipta FA og ráðuneytisins síðastliðið vor, en í marz óskaði FA upplýsinga um hvort ráðuneytið teldi vöruvalsreglur, sem settar voru um ríkiseinkasöluna í Fríhöfninni eftir afskipti Eftirlitsstofnunar EFTA, gilda um verzlun Heinemann eftir að það fyrirtæki tók við rekstri Fríhafnarinnar. Í svari ráðuneytisins, sem barst í apríl, var undirstrikað að ákvæði tollalaga, sem vöruvalsreglurnar byggðust á, giltu ekki um einkaaðila og ekki færi á milli mála að Heinemann væri einkafyrirtæki. Ríkið hefur því ekki aðeins einkavætt Fríhöfnina, heldur búið svo um hnúta að þrátt fyrir að vera í einokunarstöðu á Keflavíkurflugvelli þarf einkafyrirtækið ekki að fara eftir reglum, sem ætlað var að tryggja jafnræði og gegnsæi í viðskiptum við birgja.

Óþolandi staða fyrir fyrirtæki á áfengismarkaði

Allt ber þetta að sama brunni. Einkaréttur ríkisins er í orði, en ekki á borði. Fjöldi undantekninga er á honum og fyrir mörgum þeirra hefur íslenzka ríkið beitt sér sjálft. FA telur að Daði Már ráðherra verði að axla ábyrgð á því verkefni, nú þegar áfengislögin heyra undir ráðuneyti hans, að hafa frumkvæði að heildarendurskoðun áfengislöggjafarinnar sem taki m.a. mið af þeirri þróun sem að ofan er lýst.

Það er algjörlega óþolandi fyrir fyrirtæki sem starfa á áfengismarkaðnum að alls konar starfsemi, sem er ekki í samræmi við áratugagamlan og úreltan lagabókstaf, sé látin óáreitt af hálfu stjórnvalda en einstök fyrirtæki megi sæta handahófskenndum geðþóttaákvörðunum lögreglu um inngrip í starfsemi þeirra og hótunum um fangelsisvist forsvarsmanna þeirra, á grundvelli sömu löggjafar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Ung til at­hafna

Hildur Rós Guðbjargardóttir,Eyrún Fríða Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×