Innlent

Karó­lína Helga skákaði sitjandi odd­vita í Hafnar­firði

Agnar Már Másson skrifar
Karólína Helga Símonardóttir er oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði í komandi sveitarstjórnarkosningum 2026.
Karólína Helga Símonardóttir er oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði í komandi sveitarstjórnarkosningum 2026. Aðsend

Karólína Helga Símonardóttir var kjörinn oddviti Viðreisnar í Hafnarfirði í dag og mun því leiða flokkinn í sveitarfélaginu í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hún hafði betur gegn Jóni Inga Hákonarsyni, sem hefur leitt listann síðustu átta ár.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Viðreisn í Hafnarfirði. Karólína hlaut tæplega 52 prósent atkvæða (317 atkvæði) í rafrænu prófkjöri sem haldið var í dag. Jón Ingi, hefur verið eini fulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði síðustu frá 2018, hlaut 42 prósent atkvæða (259 atkvæði). 

Sjá einnig: Kosningavakt Vísis

Annað sætið í prófkjörinu hlaut Árni Stefán Guðjónsson sem bauð sig bæði fram í fyrsta og annað sætið. Árni hlaut 334 atkvæði í annað sæti en 27 í hið fyrsta. Hann hlaut því 59 prósent atkvæða samanborið við 20 prósent sem féllu í skaut mótframbjóðanda hans, Hjördísi Láru Hlíðberg (110 atkvæði í annað sæti).

Karólína Helga Símonardóttir oddviti Viðreisnar og Árni Stefán Guðjónsson, sem skipar 2. sætið.Aðsend

Jón Ingi mun því skipa þriðja sætið og Hjördís fjórða.

Karólína Helga Símonardóttir, sem er fertug, er mannfræðingur að mennt og með kennsluréttindi á öllum skólastigum auk þess sem hún er atvinnurekandi. Hún hefur verið varabæjarfulltrúi Viðreisnar síðasta kjörtímabil og er 1. varaþingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi. Þá var hún áður varaþingmaður fyrir Bjarta framtíð árið 2017.

Árni Stefán Guðjónsson er 39 ára en hann er menntaður sem kennari og starfar í dag sem áfangastjóri í Flensborgarskólanum í Hafnarfirði.

Haft er eftir nýjum oddvita í fréttatilkynningu frá Viðreisn að þakklæti til félagsfólks sé henni efst í huga. „Þetta hefur verið snörp en skemmtileg prófkjörsbarátta, ég þakka Jón Inga [svo] fyrir drengilega baráttu,“ segir Karólína Helga samkvæmt tilkynningunni.

Á kjörskrá voru 753 og var kjörsókn 82%, samkvæmt tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×