Skoðun

Af þessu tvennu, er mikil­vægast að gera réttu hlutina

Sveinn Ólafsson skrifar

Hvaða flokkur sem nær árangri í borgarstjórnarkosningum í vor, verður að starfa með öðrum flokkum til að mynda meirihluta. Nú lítur út fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn verði stærsti flokkurinn að loknum þeim kosningum. Það er hins vegar margt sem bendir til að þau nái ekki að semja við aðra um meirihluta. Það er eitraða sambandið milli Sjálfstæðisflokksins og þeirra flokka sem velja að vinna með honum, sem gerir þetta. Flokkar sem það gera, lenda einatt í ruslatunnunni að loknu kjörtímabili. Kjósendur þeirra hafa flykkst annað.

Þau sem þekkja söguna af sporðdrekanum sem vildi fá far yfir ána á baki frosksins, vita að sporðdrekinn sagði við froskinn að auðvitað myndi hann ekki stinga hann, þá myndu þeir báðir sökkva og deyja. Svo veitti sporðdrekinn frosknum banastunguna þegar þeir voru að komast yfir. - Það er í eðli mínu, segir sporðdrekinn við froskinn þegar þeir hurfu báðir í djúpið. Lengi vel náði Sjálfstæðisflokkur að standa réttur eftir, meðan samstarfsflokkarnir lágu særðir eftir eða hreinlega hurfu, en núorðið er veikin einnig farin að ná til hans.

Framtakssamir sjálfstæðismenn geta alltaf gengið í aðra flokka. Þannig áttum við borgarstjóra sem hafði verið formaður ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi. Einar Þorsteinsson er geðþekkur maður, öfgalaus og tilbúinn til samstarfs á báða bóga. Það lá því beint við að reyna að mynda meirihluta með fólki úr sínum gamla flokki, en ekki gekk það upp. Inn í það misheppnaða pólltíska útspil steig Heiða Björg, sem nú er borgarstjóri.

Það er tvennt, sem er mikilvægt að stjórnmálamenn og -konur geri. Annað er að tala um réttu hlutina og hitt er að gera réttu hlutina. Af þessu tvennu, er mikilvægast að gera réttu hlutina. Heiða Björg hefur þegar sýnt hæfileika sina með því að sameina núverandi meirihluta. Eins og Skaupið og Sveppi hafa sýnt, þá á hún verk að vinna að láta borgarbúa muna hvað hún heitir.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×