Sport

Tók kast eftir ó­vænt tap og spaðinn fékk að finna fyrir því

Sindri Sverrisson skrifar
Coco Gauff leyndi ekki vonbrigðum sínum í Ástralíu í dag.
Coco Gauff leyndi ekki vonbrigðum sínum í Ástralíu í dag. Getty/Fred Lee

Hin bandaríska Coco Gauff, þriðja efsta kona heimslistans í tennis, missti stjórn á skapi sínu og lét spaðann finna fyrir því eftir að hún féll óvænt úr leik á Opna ástralska mótinu í dag.

Gauff var á leið inn til búningsklefa eftir tapið þegar hún stoppaði og bombaði tennisspaða sínum ítrekað í gólfið, eins og sjá má hér að neðan.

Ástæðan fyrir reiði Gauff var sú að hún tapaði, í aðeins 59 mínútna leik, gegn hinni úkraínsku Elinu Svitolina í 8-liða úrslitum mótsins.

Gauff hefur unnið tvö risamót á ferlinum, Opna bandaríska árið 2023 og Opna franska í fyrra, en hefur best náð í undanúrslit á Opna ástralska mótinu

Hún mátti sín lítils gegn Svitolina í dag og tapaði í tveimur settum, 6-1 og 6-2. Hún gekk þögul af velli en myndavélarnar eltu þessa tvítugu stjörnu nógu lengi til að sjá þegar hún fékk útrás fyrir vonbrigði sín.

„Þessi frammistaða Coco er mjög mikil vonbrigði. Hún tók þau réttilega út á spaðanum í lokin,“ sagði Jamie Murray í útsendingu TNT Sports.

Hin 31 árs gamla Svitolina var að sjálfsögðu í skýjunum með að komast í undanúrslitin. Hún var eitt sinn í þriðja sæti heimslistans en tók sér hlé frá tennis þegar hún eignaðist dóttur sína Skai árið 2022.

Eftir endurkomuna hefur Svitolina meðal annars komist í undanúrslit á Wimbledon 2023 og í 8-liða úrslit Opna franska mótsins tvisvar. Sigurinn á Gauff skilar henni aftur í hóp tíu efstu á heimslistanum.

„Þetta hefur alla þýðingu fyrir mig,“ sagði Svitolina. „Ég reyni að leggja allt í sölurnar og ég er hæstánægð með frammistöðuna hér í Ástralíu. Þetta hefur verið góð ferð heilt yfir og ég er mjög ánægð með að komast í undanúrslitin,“ sagði hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×