Skoðun

Bjarg­ráð

Heiða Kristín Helgadóttir skrifar

Til að ná góðum árangri í kosningum þarf þrennt að fara saman - mikil vinna, góð tilfinning fyrir tímasetningum og heppni. Á laugardaginn næstkomandi fer fram oddvitaprófkjör Viðreisnar í Reykjavík. Ég styð og treysti Björgu Magnúsdóttur til þess að leiða lista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor og vona að félagar í Viðreisn veiti henni umboð til þess.

Ég hef aldrei þekkti Björgu öðruvísi en þannig að hún hafi verið með nokkur stór verkefni í gangi í einu. Hún skrifar bækur og sjónvarpsseríur, stýrir útvarps- og sjónvarpsþáttum, giftir fólk, gefur börnum nöfn og fermir og stígur svo inn í stjórnmál sem aðstoðarmaður borgarstjóra, milli þess sem hún eignast barn og heldur saman nútímafjölskyldu. En samt hefur hún alltaf pláss til að veita fólki óskipta athygli og sýna því áhuga. Hvað sem á dynur gefur hún sér tíma til að hlusta, taka inn og veita gagnlega endurgjöf sem er kjarnyrt og ekki bara dregin fram til að segja eitthvað.

Þannig hefur Björg einstakt lag á því að vinna að mörgum verkefnum í einu og sigla þeim koll af kolli í í höfn af mikilli natni. Kosningabaráttan hefur dregið fram þessa styrkleika hennar. Þannig hefur ólíklegasta fólk, sem hingað til hefur ekki viljað skipta sér af stjórnmálum, og aðrir sem hafa mikinn áhuga úr ólíkum áttum, stigið fram henni til stuðnings og það kemur mér ekki á óvart því hún hefur þannig áhrif á fólk. Alls staðar þar sem Björg kemur hrífur hún fólk með sér. Ég treysti engri betur til að ná árangri fyrir Viðreisn í kosningunum í vor. Björg vinnur vinnuna, skilur leikinn og er óhrædd við að grípa tækifærin.

En það er eitt að vinna prófkjör en annað að ná árangri fyrir flokkinn í kosningunum í vor. Það getur reynst hinum almenna kjósanda snúið að bera skynbragð á það hvort oddviti sé latur eða duglegur, en hann skynjar orkuna og stemminguna. Með Björgu í forystu hef ég engar áhyggjur, því hún er vinnuþjarkur og stemmingskona. Hún mætir á staðinn, gerir það sem þarf að gera og heldur uppi andanum á meðan.

Björg hefur líka sterka tilfinningu fyrir tímasetningum og kann að stíga ölduna og skapa sér tækifæri í krefjandi aðstæðum. Ofan á þetta bætist svo mikilvægasti eiginleikinn - sem alltof fáir hafa - að tala þannig að kjósendur heyri og skilji. Það er get ég vottað að Björg gerir vel. Hún segir það sem þarf að segja, þegar að það þarf að segja það.

Heppni, er eins og áður segir, stór hluti af því að ná árangri í kosningum En ef þú vinnur ekki vinnuna, ert ekki undirbúinn og talar yfir kjósendur en ekki beint til þeirra þá skiptir engu máli hvaða forsjá vakir yfir þér og framboðinu - þú munt ekki ná í gegn. Viðreisn hefur hér kjörið tækifæri til að stækka og höfða til breiðari hóps en vel menntaðra millistjórnenda sem hafa einstakan áhuga á excel skjölum og Evrópusambandinu. Heppin þau að fá að velja Björgu á laugardaginn.

Höfundur er fyrrverandi stjórnmálakona.




Skoðun

Skoðun

Fimm rang­færslur um Byrjendalæsi

Gunnar Gíslason,Guðmundur Engilbertsson,Jenný Gunnbjörnsdóttir ,Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir,Rannveig Oddsdóttir,Rúnar Sigþórsson skrifar

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×