Viðskipti innlent

Spenna vegna nýs mats á stærð loðnu­stofnsins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Vestmannaeyjar eru stærsta loðnuverstöð landsins.
Vestmannaeyjar eru stærsta loðnuverstöð landsins. Vísir/Egill Aðalsteinsson

Sjávarútvegurinn bíður nú í ofvæni eftir nýju mati Hafrannsóknastofnunar á stærð loðnustofnsins. Fréttir sem bárust af loðnuleitinni um helgina juku mönnum bjartsýni um meiri loðnukvóta en urðu líka til þess að hlutabréf sjávarútvegsfyrirtækja hækkuðu í verði.

Í fréttum Sýnar var fjallað um loðnuna sem í meira en hálfa öld verið næstmikilvægasti nytjastofn Íslendinga, á eftir þorskinum, það er að segja ef ekki er loðnubrestur. En einmitt vegna þess hve loðnan er dyntótt og veiðitíminn skammur er talið afskaplega mikilvægt á þessum árstíma að kortleggja vel loðnugöngurnar og stærð þeirra.

Siglingaferlar skipanna fimm sem tóku þátt í loðnumælingunni.Hafrannsóknastofnun

Mynd Hafrannsóknastofnunar sýnir siglingaferla þeirra fimm skipa sem tóku þátt í loðnuleitinni í síðustu viku, sem voru tvö hafrannsóknaskip og þrjú veiðiskip frá útgerðinni. 

Menn voru sérstaklega áhugasamir að sjá hvar hlykkir komu á ferlana því það þýddi að þar sást á bergmálsmælum nægilega mikið af loðnu til að setja út troll til sýnatöku. Slíkir hlykkir sáust víða, eins og undan Suðausturlandi, undan Langanesi, norður af Húnaflóa og út af Horni.

Kortið sýnir þéttleika loðnunnar sem fannst.Hafrannsóknastofnun

Kort sem Hafrannsóknastofnun birti svo á sunnudag sýndi svo betur þéttleika loðnunnar sem mældist. Stærsta loðnutorfan sást í fremsta hluta loðnugöngunnar undan sunnanverðum Austfjörðum. Fleiri torfur sáust út af Austfjörðum en einnig stórar torfur norður af Húnaflóa. 

Þessi mynd varð til þess að hlutabréfaverð í þremur sjávarútvegsfyrirtækjum sem stunda loðnuveiðar hækkuðu á mánudag um allt að fimm prósent.

Loðnuvinnslur eru núna í átta byggðum á landinu.Grafík/Sara Rut Fannarsdóttir

Spennan er væntanlega mest í þeim bæjum landsins sem eiga mest undir loðnuveiðum.  Vestmannaeyjar eru stærsta verstöðin og Norðfjörður númer tvö en loðnuvinnslur eru einnig á Þórshöfn, Vopnafirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Hornafirði og á Akranesi. Á öllum þessum stöðum má búast við mikilli tekjuinnspýtingu ef loðnukvótinn verður aukinn að einhverju ráði.

Loðnubæjunum hefur fækkað um einn frá því í fyrra. Seyðisfjörður er dottinn út eftir að bræðslunni þar var lokað.

Búist er við að Hafrannsóknastofnun tilkynni niðurstöður sínar á morgun. Miðað við núverandi kvóta stefnir í allt að tíu milljarða króna loðnuvertíð. Það eru ekki mörg ár síðan við fengum fimmtíu milljarða vertíð þannig að miklir hagsmunir eru undir að meira finnist, eins og fjallað er um í frétt Sýnar:


Tengdar fréttir

Halda til loðnuveiða í kvöld

Reiknað er með því að tvö skip haldi til loðnuveiða frá Neskaupstað í kvöld, Barði NK frá Síldarvinnslunni og grænlenska skipið Polar Amaroq. Polar Amaroq kom með fyrstu loðnu vertíðarinnar til Neskaupstaðar síðastliðinn þriðjudag.

Loðna fundist á stóru svæði

Loðna hefur fundist á stóru svæði í mælingu Hafrannsóknastofnunar sem er langt komin. Stefnt er að því að birta veiðiráðgjöf í seinni hluta þessarar viku en einungis á eftir að fara yfir takmarkað svæði út af Vestfjörðum.

Norðfirðingar gleðjast að sjá loðnuna birtast

Gleði ríkti á Norðfirði í dag þegar fyrstu loðnunni á þessari vertíð var landað hjá Síldarvinnslunni. Loðnunni er lýst sem stórri og fallegri og fer hún öll í heilfrystingu til manneldis.

Loðnuvertíð hafin og floti farinn til loðnumælinga

Loðnuvertíðin er hafin en fyrsta loðnan veiddist í dag út af Austfjörðum og er stefnt að því að henni verði landað á Norðfirði á morgun. Þá héldu fimm skip á miðin í dag til loðnumælinga á vegum Hafrannsóknastofnunar en niðurstöðurnar ráða miklu um það hversu stór loðnukvótinn verður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×